Fara í efni

Endurskoðun Sóknaráætlunar Vestfjarða

Fréttir Verkefni Áhersluverkefni sóknaráætlunar

Tímabil fyrstu Sóknaráætlunar Vestfjarða lýkur í desember 2019.  Sóknaráætlun Vestfjarða er sértæk byggðaáætlun fyrir Vestfirði og jafnframt samheiti yfir samning landshlutasamtakanna við hið opinbera um fjármögnun sóknaráætlunar og Uppbyggingarsjóð Vestfjarða. Sóknaráætlun Vestfjarða byggir á lögum um byggðaáætlun og Sóknaráætlanir landshluta nr. 69/2015.

Gert er ráð fyrir að Sóknaráætlanir landshluta taki tillit til Byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, menningarstefnu og annarri opinberrar stefnumótun. Þannig er byggðaáætlun í raun áætlun sem nær yfir allt landið og mun fleiri málefnasviða en sóknaráætlun, en þeirri síðarnefndu er ætlað að draga fram sérstöðu landshluta sem endurspeglast í áætlunum og verkefnum.

Þessa mánuðina  fer fram mótun nýrrar sóknaráætlunar fyrir Vestfirði. Hófst vinnan með formlegum hætti með fundi sem hafði yfirskriftina Krossgötur og fór hann fram þann 29. maí sl. í Bolungarvík. Var markmið hans að vinna að framtíðarsýn fyrir Vestfirði til lengri tíma og verður sú vinna notuð til að draga fram helstu áherslur og aðgerðir sem notaðar verða við endurskoðun sóknaráætlunar til næstu fimm ára. Í júní verða haldnir tveir opnir fundir, annars vegar á Patreksfirði, einn fundur áætlaður fyrir atvinnulífið og hinn er hugsaður til að heyra raddir ungmanna á svæðinu. Einnig verða tveir fundir á Hólmavík sem stílaðir eru á atvinnulíf og hinn á ungmenni.  Lögð er áhersla á góða þátttöku á fundina og verða þeir auglýstir sérstaklega. Málefnin sem dregið verður fram á  fundinum í júní eru atvinnu- og nýsköpunarmál, menntun og menningarmál og umhverfismál.

Markmið fundanna er að draga saman megináherslur landshlutans í sérhverju málefni fyrir sig  ásamt því að koma fram með tillögur að sértækum markmiðum og aðgerðum. Afurðir fundanna verða dregnar saman sem uppistaðan í efnistökum við mótun nýrrar sóknaráætlunar. Afurð sérhvers fundar verður einnig dregin saman og gerð aðgengileg sveitarfélögunum og nefndum þeirra á hverju svæði fyrir sig. Þær afurðir kunna að nýtast sérhverju sveitarfélagi til stefnumörkunar.

Hægt er að lesa meira um ferli endurskoðunar Sóknaráætlunar Vestfjarða hér.

Þeir aðilar sem ekki sáu sér fært að mæta á þá fundi sem haldnir eru vegna endurmótunar sóknaráætlunar er bent á að hægt er að senda inn ábendingu eða skilaboð á vefsíðu Vestfjarðastofu hér.