Fara í efni

Áhersluverkefni 2022

Vestfjarðaleiðin

 

Markmið

Vinna stendur yfir við þróun ferðaleiðarinnar Vestfjarðaleiðin sem liggur um Vestfirðir og Dali. Unnið hefur verið með breska ráðgjafafyrirtækinu Blue Sail að þróun ferðaleiðarinnar og vinnukistu fyrir aðildarfyrirtæki. Einnig er unnið með almannatengslaskrifstofunni Cohn og Wolfe að mörkun og markaðsaðgerðum í tengslum við verkefnið.

Verkefnalýsing

Vegna Covid-19 hefur röðun verkþátta breyst að einhverju leiti. Í stað vinnustofu og funda var lögð meiri áhersla 2020 á að undirbúa markaðssetningu og kynna verkefnið í gegnum net og samfélagsmiðla. Fyrri hluti árs 2021 var jafnframt nýttur til að vinna að nýrri heimasíðu, og gerð markaðsefnis. Bundnar eru vonir við að með léttingu samkomutakmarkana um mitt ár sé hægt að koma aftur á vinnustofum og fundum í tengslum við verkefnið.

Árangursmælikvarðar

Leiðin þróuð
Unnin mörkunarvinna vegna leiðarinnar
Vestfjarðaleiðin opnuð
Heimasíða verkefnisins opnuð
Vinnustofur vegna verkefnisins haldnar
Markaðssetning og kynningarmál

Staða verkefnis 2022

Þróun ferðamannaleiðarinnar er lokið, sett hefur verið upp heimasíða vegna verkefnisins og unnin hefur verið PR vinna og markaðssetning á leiðinni. Vinna árið 2022 snýst að tengingu ferðaþjónustuaðila við verkefnið og hvernig þeir geta nýtt sér toolkit og markaðssetninguna

Lokaafurð:

Vestfjarðaleiðin orðin þekkt vörumerki og leiðin orðin gott mótvægi við hringveginn. Ferðaþjónustuaðilar svæðis þekkjast betur í gegnum öflugt tengslanet og geta þannig ýtt undir lengri dvöl með því að beina viðskiptavinum sínum að aðrar vörur og þjónustu á svæðinu.
Opnun Vestfjarðaleiðarinnar markar skref í lengingu ferðaþjónustutímabilsins.

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Verkefnisstjóri - Díana Jóhannsdóttir og Þórkatla Soffía Ólafsdóttir
Tímarammi - janúar - desember 2022
Framlag úr Sóknaráætlun til þriggja ára - Kr. 18.000.000- sem skiptis jafnt á árin eða 6.000.000 á ári

Orkuskipti í haftengdri starfsemi - sviðsmyndir

 

Markmið

  • Móta sviðsmyndir mögulegrar þróunar orkuskipta í höfnum á Vestfjörðum
  • Greina útgerðarflokka með tilliti til orkunotkunar og staðsetningar á helstu hafnarsvæðum á Vestfjörðum
  • Greina umferð flutningabíla á helstu hafnarsvæðum á Vestfjörðum
  • Kortleggja mögulega þróun í grænorkulausnum fyrir báta, skip og flutninga á landi
  • Kortleggja mögulega þörf á innviðum á hafnarsvæðum vegna orkuskipta

Verkefnalýsing

Orkuskipti í sjávartengdri starfsemi eru á næsta leiti í samræmi við markmið ríkistjórnarinnar um samdrátt í losun á gróðurhúsalofttegundum. Bátar og skip sem nú nota jarðefnaeldsneyti munu skipta yfir í aðra orkugjafa en mikilvægt er að skilja hvaða orkugjafar eru líklegir til að henta hverjum notanda. Þannig verður hægt að skipuleggja hafnarsvæði með tilliti til orkuskipta og taka betri ákvarðanir um innviðauppbyggingu og móta heildstæðara skipulag í kringum hafnarsvæðið til framtíðar. Einnig verður hægt að flýta fyrir og styðja við orkuskipti í sjávartengdri starfsemi með því að skilja innviðaþörf og áskoranir.

  • Greina á útgerðarflokka með tilliti til orkunotkunar og staðsetningu á helstu hafnarsvæðum á Vestfjörðum. Þannig fæst yfirlit um notendur hafna, vélastærð, farsvið, orkuþörf og hvernig þeir notendur nýta hafnarmannvirki.
  • Greina umferð flutningabíla á helstu hafnarsvæðum á Vestfjörðum og fá yfirsýn yfir tíðni flutninga, fjölda ferða og magn sem flutt er af svæðinu.
  • Leita á til sérfræðinga á sviði grænorku í sjávartengdri starfsemi hérlendis og erlendis og fá yfirsýn yfir mögulega þróun í grænorkulausnum fyrir báta, skip. Þau gögn verða notuð til að búa til sviðsmynd um hvaða orkugjafar eru líklegir til að koma í staðin fyrir jarðefnaeldsneyti og hvenær þeir orkugjafar gætu komið á markað.
  • Leita á til sérfræðinga á sviði flutninga á landi og fá yfirsýn yfir sjávartengdri starfsemi hérlendis og erlendis og fá yfirsýn yfir mögulega þróun í grænorkulausnum fyrir flutningabíla. Þau gögn verða notuð til að búa til sviðsmynd um hvaða orkugjafar eru líklegir til að koma í staðin fyrir jarðefnaeldsneyti og hvenær þeir orkugjafar gætu komið á markað.
  • Senda á út spurningalista til vélaumboða á Íslandi, bátasmiðja og innflutningsaðila á flutningabílum og kalla eftir þeirra sýn á grænorkunotkun og hvenær búast megi við þær lausnir komi á markað. Niðurstaðan gefur betri mynd af væntingum aðila sem sýsla með vélar, báta og flutningabíla og hafa góða innsýn inn í tækniþróun.
  • Senda út spurningarlista á smásölufyrirtæki í orkusölu og kalla eftir þeirra afstöðu varðandi orkusölu og innviðauppbyggingu vegna orkuskipta. Niðurstaðan gefur innsýn inn í væntingar orkusala og hvernig þau sjá fyrir sér að þróun á grænorkutækni muni vinda fram á næstu árum.
  • Niðurstöður úr greiningum, viðtölum og spurningalistum verða svona notaðar við sviðsmyndagerð sem tekur á orkuþörf notenda í höfnum og flutningum. Þannig verður hægt að meta innviðaþörf á og við hafnarsvæði í tengslum við raforkuþörf, rými fyrir tanka, öryggissvæði og þekkingu starfsfólk svo eitthvað sé nefnt. Þetta mun einnig nýtast orkufyrirtækjum til að skipuleggja sölu og dreifingu á orku innan hafnarsvæða.

Líklegt er að orkuskipti í höfnum kalli á töluverðar fjárfestingar hjá ríki og sveitarfélögum. Með því að fá sviðsmyndagreiningu sem tekur á mismunandi notendum innan hafnarsvæðisins verður hægt að byggja upp innviði á hagkvæmari hátt og í takt við þróun í notkun á vistvænni orku. Jafnframt er gert er ráð fyrir að niðurstöðuna sé hægt að heimfæra á aðrar sambærilegar hafnir og nota til frekari greininga á innviðauppbyggingu innan hafnarsvæða, með tilliti til mismunandi notenda.

Árangursmælikvarðar
Sviðsmyndir fyrir orkuskipti í höfnum á Vestfjörðum kynntar á opnum fundum, birtar á vef Vestfjarðastofu, fréttir í miðlum og kynntar sérstaklega fyrir sveitarstjórnum, höfnum og samtökum fyrirtækja á svæðinu. 

Lokaafurð
Skýr sýn á innviði sem sveitarfélög þurfa að gera ráð fyrir á hafnarsvæðum vegna orkuskipta sem leiða mun til hagkvæmari innviðauppbyggingu í takti við þróun á vistvænni orku.

Framkvæmdaraðili - Blámi og Vestfjarðastofa
Tímarammi - mars - desember 2022
Framlag úr Sóknaráætlun 2022 - Kr. 6.000.000-

Sýnilegri Vestfirðir

 

Markmið

Að standa að 2-3 viðburðum á ári sem stuðla að auknum sýnileika Vestfjarða sem fjárfestingakosti og til búsetu.

Að segja 20-30 sögur af Vestfirðingum, einstaklingum og fyrirtækjum sem geta haft áhrif á ímynd svæðisins.

Að miðla almennum og sértækum upplýsingum Vestfirði svo sem fjárfestingakosti, umhverfismál og fleira gegnum vef og samfélagsmiðla.

Verkefnalýsing

Verkefnið er til þriggja ára. Verkefnið er hugsað sem framhald verkefnisins „Vestfirðingar – Almannatengsl“ sem var áhersluverkefni árið 2018. Á verkefnatímanum verða haldnir amk tveir stórir viðburðir á ári til að auka sýnileka svæðisins miðað við tiltekna markhópa. Áherslur verða áfram lagðar á Vestfirðingar- sögur sem en á árinu 2020 verður sjónum beint að fyrirtækjum á svæðinu. Framsetning og miðlun efnis um Vestfirði skiptir miklu máli og hér er horft til þess að miðla efni um fjárfestingar á Vestfjörðum og láta vinna greiningar sem styðja við málflutning svæðisins um mikilvæg mál.

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Tímarammi - janúar - desember 2022
Framlag úr Sóknaráætlun til þriggja ára sem skiptist jafnt á árin kr.22.500.000

Ungmenni fyrir Vestfirði framtíðar

 

Markmið

Að hvetja ungmenni til lýðræðislegrar þátttöku.

Að hlusta á raddir ungmenna til að efla búsetumöguleika ungs fólks á Vestfjörðum.

Að þátttakendur öðlist þekkingu á markmiðum og tilgangi ungmennaráða sveitarfélaga.

Að ungmenni á Vestfjörðum fái vettvang til að ræða loftslagsmál, heimsmarkmið og umhverfismál og tengja við eigin veruleika og Vestfirði

Verkefnislýsing

Ungmennaþing er vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman og ræðir málefni sem brenna á þeim. Mikilvægt er að ungt fólk fái vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri um þau mál sem á þeim brenna.

Áhersla verður lögð á að Ungmennaþing verði haldið á forsendum ungs fólks og mótun þess og innihald verður á þeirra forsendum. Ungmennaráð sveitarfélaga verði virkjuð til að móta innihald og framkvæmd ungmennaþings.

Gert er ráð fyrir að á þinginu verði komið á ungmennaráði Fjórðungssambands Vestfirðinga með skýr tengsl við stjórn Fjórðungssambands og starfsmenn Vestfjarðastofu. Þeirri stjórn yrði falið að undirbúa og skipuleggja næsta ungmennaþing og funda 4 sinnum á ári um málefni Vestfjarða.

Niðurstöðum ungmennaþings verður komið á framfæri með fjölbreyttum hætti bæði til sveitarstjórnarmanna, hins opinbera og almennings. 

Árangursmælikvarðar

Ungmennaþing verði haldið á Vestfjörðum haustið 2022 og niðurstöður þess kynntar á fjölbreyttum miðlum. 

Lokaafurð

Ungmennaþing

Kynningar á niðurstöðum þingsins til kjörinna fulltrúa sveitarfélaga og almennings.

Stofnað verði ungmennaráð Fjórðungssambands Vestfirðinga

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Verkefnisstjóri - Steinunn Ása Sigurðardóttir
Tímarammi - maí - desember 2022
Framlag úr Sóknaráætlun 2022- Kr.1.500.000-

Visit Westfjords

 

Markmið

Að sinna árið 2022 beinni erlendri markaðssetningu á vestfirskri ferðaþjónustu, með vinnustofum, kynningum, blaðamanna-ferðum og samfélagsmiðlum.

Að leggja áherslu á samfélagsmiðla og stafrænar lausnir í markaðssetningu svæðisins.

Að blása lífi í blogg Visit Westfjords undir nafninu Bestfjords.

Verkefnislýsing
Verkefnið snýr að almennri markaðssetningu Vestfjarða sem áfangastað ferðamanna. Verkefninu er skipt niður í fimm þætti:

1. Samfélagsmiðlar og vefur
2. Blaðamannaferðir
3. FAM ferð
4. Sýningar/vinnustofur
5. Beinar auglýsingar

Verkefnið er heilsteypt markaðsvinna fyrir Markaðsstofu Vestfjarða sem horfir til þeirra áhersluþátta sem settir hafa verið t.d með tilliti til lengingar ferðamannatímabilsins og dreifingar ferðamanna innan svæðisins.

Árangursmælikvarðar:
Fjöldi funda/vinnustofa
Fjöldi blaðamanna/áhrifavaldaferða
Auglýsingar vegna Keyrðu kjálkann
Auglýsingar vegna Vestur í vetur

Lokaafurð:
Fundir og vinnustofur.
Birtar auglýsingar fyrir Keyrðu kjálkann.
Fjöldi blaðamannaferða og áhrifavaldaferða.

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Verkefnisstjóri - Díana Jóhannsdóttir
Tímarammi - janúar - desember 2021
Framlag úr Sóknaráætlun til þriggja ára sem skiptist jafnt á árin Kr. 16.500.000- eða 5.5000.000 á ári.

Menntastefna fyrir Vestfirði

 

Markmið

Að greina stöðu, strauma og stefnur til að móta sameiginlega framtíðarsýn og aðgerðaáætlun um hvernig megi efla skólastarf á svæðinu frá leikskóla til háskóla

Verkefnalýsing

Samfélagsbreytingar eru að verða á Vestfjörðum vegna bættra samgangna og breytinga í atvinnulífi. Takast þarf á við áskoranir vegna breytinga í samsetningu íbúa, fjögunar íbúa af erlendum uppruna, vegna loftslagsbreytinga og breytinga sem tengjast fjórðu iðnbyltingunni. Skoða þarf strauma og stefnur í samhengi við sviðsmyndir um mögulega þróun atvinnulífs og mannlífs.

Mikilvægt er því að vinna sameiginlega greiningarvinnu á styrkleikum, veikleikum og áskorunum skólastarfs á Vestfjörðum sem nýta má sem innlegg í mótun tillagna um aðgerðir sem sveitarfélög og skólar geta ráðist í til að efla skólastarf á öllum skólastigum í þágu nemenda og samfélagsins alls.

Verkefnið er samstarfsverkefni Vestfjarðastofu, Menntaskólans á Ísafirði, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Háskólaseturs Vestfjarða. Unnin verði sameiginleg greiningarvinna, stefna og aðgerðaáætlun. Greiningarvinnan getur jafnframt nýst hverri einingu til frekari úrvinnslu.  

Árangursmælikvarðar

Ný menntastefna fyrir Vestfirði birt í lok árs 2022

Aðgerðaáætlun í menntamálum samþykkt af öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum

Lokaafurð:

Menntastefna og aðgerðaáætlun í menntamálum. Ávinningur samfélagsins verður stefna sem stuðla skal að öflugri skólaþróun á Vestfjörðum og úrbætur í menntamálum svæðsins með aukinni áherslu á málaflokkinn.  

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Tímarammi - mars - desember 2022
Framlag úr Sóknaráætlun 2022 - Kr. 4.500.000.-

Samstarfsverkefni í orkumálum - Blámi

 

Markmið

Að efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna. Með orkuskiptum er átt við að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Markmiðið er að ýta undir orku- og loftslagstengda nýsköpun, efla frumkvöðla og styrkja nýsköpunarumhverfið á Vestfjörðum

Verkefnalýsing

Ætlunin með Bláma er að leiða saman aðila sem geta unnið saman við það að afla alþjóðlegs fjármagns til tilrauna, rannsókna og þróunar á orku- og loftslagsvænum lausnum. Með nýjum tækifærum og auknu samstarfi á milli fyrirtækja og opinberra aðila er hægt að ýta undir að verkefni og tækifæri sem skapast á svæðinu þróist í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem verðmætasköpun úr vannýttu hráefni er aukin, bæði úr því sem er til staðar og því sem verður til vegna nýrra verkefna eða framleiðslu. 

Blámi er samstarfverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. 

Árangursmælikvarðar

Aðgerðir og umfjöllun um orkuskipti 

Umsóknir um erlenda og innlenda styrki til verkefna á sviði loftslags- og orkumála 

Lokaafurð:

Fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum verði sýnilegir og virkir þátttakendur í orkuskiptum og til verði nýsköpunarverkefni á sviði orkumála á Vestfjörðum.

Framkvæmdaraðili: Blámi 
Tímarammi - 2021-2024
Framlag úr Sóknaráætlun 2022 - Kr. 7.500.000.-