Fara í efni

Áhersluverkefni 2023

Ímynd, uppbygging og fjárfestingar á Vestfjörðum

 

Markmið

 • Að kynna fjárfestingarmöguleika á Vestfjörðum ásam að laða að nýja fjárfesta
 • Að tengja kynningar við aðgerðir tengdar ímynd samfélags og atvinnulífs á Vestfjörðum í samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki
 • Ýta undi aukna uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, gistingu og afþreyingu í ferðaþjónustu

Verkefnalýsing

Á sama tíma og mikil uppbygging er á Vestfjörðum er opinber orðræða gagnvart helstu atvinnugreinum oft á tíðum mjög neikvæð sem gæti ýtt enn undir neikvæða heildarmynd af landsvæðinu. Mikilvægt er að vekja athygli á helstu eiginleikum þeirrar uppbyggingar í atvinnulífi sem á sér stað og draga fram hvernig nýjar atvinnugreinar í örum vexti sinna samfélagsábyrgð og náttúruvernd í samvinnu við sveitarfélög og íbúa.

Settur verður upp nýr vefhluti InWest á vef Vestfjarðastofu þar sem áhersla er lögð á tækifæri til fjárfestinga á Vestfjörðum. Ítarefni verður unnið til að fylgja eftir verkefnum.

Málþing verður haldið um Uppbyggingu og atvinnulíf á Vestfjörðum

Markvisst unnið að því að auka vitund fjárfesta um möguleika á Vestfjörðum og unnið með Íslandsstofu að því að kynna tækifæri á Vestfjörðum fyrir erlendum fjárfestum.

Árangurmælikvarðar

 • Samstarfsverkefni sveitarfélaga og atvinnulífs um ímynd og uppbyggingu á Vestfjörðum
 • Góður kynningarvefur fyrir fjárfestingar á Vestfjörðum
 • Handbært ítarefni
 • Samstarf við Íslandsstofu um erlendar fjárfestingar mótað
 • Málþing um uppbygginu og atvinnulíf á Vestfjörðum haldið

Lokaafurð

 • Bætt ímynd atvinnulífs og samfélags á Vestfjörðum
 • Aukið framboð á nýju íbúðahúsnæði
 • Nýjir gististaðir og afþreytingarmöguleikar

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Samstarfsaðilar: Fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum
Ráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, Innviðaráðuneyti
Tímarammi - mars 2023 - desember 2024
Framlag úr Sóknaráætlun til tveggja ára - Kr. 20.000.000- sem skiptis jafnt á árin eða 10.000.000 á ári

 

Markaðssetning í ferðaþjónustu

 

Markmið

 • Lenging ferðamannatímabilsins á Vestfjörðum
 • Þróun ferðaleiðar - Vestfjarðaleiðin
 • Auknar fjárfestingar í ferðaþjónstu á Vestfjörðum

Verkefnalýsing

Markaðssetning og kynning Vestfjarða hefur síðustu ár skilað árangri til dæmis í viðurkenningu Lonely Planet fyrir árið 2022 þar sem Vestfirðir voru í efsta sæti yfir áhugaverð svæði til að heimsækja það ár. Halda þarf áfram þeirri vinnu og nýta tækifærin sem slík viðurkenning veitir.

Mikill áhugi er nú á Vestfjörðum sem mikilvægt er að nýta til að hvetja til aukinna fjárfestinga í gistingu og afþreyingu á svæðinu sem verður mikilvæg áhersla næstu tvö árin þar til lokið verður við stór samgönguverkefni sem bæta mjög aðgengi að svæðinu.

Lögð verður áhersla á þátttöku ferðaþjónustufyrirtækja í markaðssetningu Vestfjarða og þau í auknum mæli hvött til að taka þátt í sýningum og til aðkomu að ferðum blaðamanna og áhrifavalda um svæðið.

Markaðsstarf erlendis og mótttaka blaðamanna verður áfram unnin í samstarfi við Íslandsstofu.

Áfram verður lögð mikil áhersla á samfélagsmiðla og stafrænar lausnir í markaðssetningu svæðisins.

Árangursmælikvarðar

 • Samfélagsmiðlum Visit Westfjords & Vestfjarðaleiðar er viðhaldið og þeim sinnt
 • Tekið á móti 4-6 blaðamönnum / áhrifavöldum og ferðir þeirra skipulagðar
 • Farið með hóp ferðaþjóna á Vestnorden, Mannamót og MidAtlantik ferðasýningar árlega.
 • Þátttaka í ferðasýningum undirbúin og skipulögð
 • Haldinn verður árlegur ferðaþjónustudagur fyrir ferðaþjóna á Vestfjörðum
 • 3-4 vinnustofur ferðaþjóna á Vestfjörðum árlega
 • Skipulagning faghópa ferðaþjóna á Vesfjörðum

Lokaafurð
Markviss erlend markaðssetning Vestfjarða
Aukið samstarf milli Markaðsstofu og ferðaþjóna
Kynning á Vestfjarðaleiðinni

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög og ferðaþjónar á Vestfjörðum
Ráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti
Tímarammi: 2023 og 2024
Framlag úr Sóknaráætlun til tveggja ára - Kr. 20.000.000- sem skiptis jafnt á árin eða 10.000.000 á ári

 

Ungmennalýðræði á Vestfjörðum

 

Markmið

Að skapa vettvang til að stuðla að aukinni lýðræðisþátttöku og -þekkingu ungmenna á Vestfjörðum. Í því felst að styðja við ungmennaráð sveitarfélaganna, stuðla að auknu samstarfi ungmenna innan fjórðungsins og að stofnað verði ungmennaráð Vestfjarða sem haldi árlega ungmennaþing Vestfjarða.

Verkefnalýsing

Fyrsta Ungmennaþingið var haldið 2022 með frábærum árangri. Þar hófst vinna að því að stofna ungmennaráð. Áfram verður unnið að stofnun ungmennaráð Vestfjarða með skýr tengsl við stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða og starfsmenn Vestfjarðastofu. Ungmennaráðinu yrði falið að undirbúa og skipuleggja næsta ungmennaþing og funda 4 sinnum á ári um málefni Vestfjarða.

Ungmennaráð Vestfjarða yrði vettvangur þar sem fulltrúar frá öllum svæðum Vestfjarða koma saman og fá tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og er jafnframt vettvangur sem hægt er að leita til til að ná fram sjónarmiðum ungmenna á svæðinu við hina ýmsu stefnumótun og ákvarðanatöku.

Ungmennaþing er vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman og ræðir málefni sem brenna á þeim. Mikilvægt er að ungt fólk fái vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri um þau mál sem á þeim brenna enda hefur sýnt sig að það að fá að taka þátt í lýðræðislegum ferlum er besta leiðin til að auka þátttöku ungmenna.

Niðurstöðum ungmennaþings verður komið á framfæri með fjölbreyttum hætti bæði til sveitarstjórnarmanna, hins opinbera og almennings og verður jafnframt stuðlað að eflingu samstarfs ungs fólks á Vestfjörðum, bæði innan landshlutans sem og við aðra landshluta. Leitast verður eftir því að styðja við og/eða eiga frumkvæði að samstarfsverkefni sem miðar að þátttöku ungs fólks og sækja í sjóði á sviði æskulýðsmála í því skyni. 

Árangurmælikvarðar

 • Að stofnað verði ungmennaráð Vestfjarða skipað fulltrúum ungmenna frá öllum svæðum
 • Að haldið verði ungmennaþing á Vestfjörðum haust 2023
 • Að koma á fót fót samstarfsverkefni ungmennasamtaka og/eða félagsmiðstöðva sem sækir fjármagn í aðra sjóði til eflingar ungmennastarfs og lýðræðisvitundar á Vestfjörðum 

Lokaafurð

 • Ung,mennaþing
 • Stofnun Ungmennaráð FV
 • Kynningar á niðurstöðum þingsins til kjörinna fulltrúa sveitarfélaga og almennings

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Samstarfsaðilar: Ungmennaráð sveitarfélaga á Vestfjörðum, Menntaskólinn á Ísafirði, Lýðskólinn á Flateyri og sveitarfélögin á Vestfjörðum
Ráðuneyti: Mennta- og barnamálaráðuneyti
Tímarammi: 2023 og 2024
Framlag úr Sóknaráætlun til tveggja ára - Kr. 4.000.000- sem skiptis jafnt á árin eða 2.000.000 á ári

 

Úrgangsmál og hringrásarhagkerfi á Vestfjörðum

 

Markmið

 • Að móta stefnu fyrir Vestfirði um úrgangsmál og hringrásarhagkerfi
 • Að unnin verði svæðisáætlun um úrgangsmál á Vestfjörðum

Verkefnislýsing

Lögum samkvæmt þurfa sveitarfélög að semja og staðfesta áætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir viðkomandi svæði. Í þeirri áætlun skal gera grein fyrir hvernig sveitarfélögin hyggjast ná markmiðum stefnu umhverfis- orku og loftslagsráðuneytis í úrgangsmálum.

Svæðisáætlun um úrgangsmál er brýnt verkefni fyrir Vestfirði sem leysa þarf hratt og vel á árinu 2023. 

Árangursmælikvarðar

Svæðisáætlun um úrgangsmál unnin og samþykkt af sveitarfélögum á Vestfjörðum. 

Lokaafurð

Samþykkt svæðisáætlun um úrgangsmál á Vestfjörðum

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Samstarfsaðilar: Sveitarfélög á Vestfjörðum
Ráðuneyti: Umhverfis- orku og loftslagsráðuneyti
Tímarammi: apríl-des 2023 
Framlag úr Sóknaráætlun:  Kr. 5.000.000- 

 

Menntastefna fyrir Vestfirði - eftirfylgni

 

Markmið

Að ljúka vinnu og fylgja eftir vinnu við Menntastefnu Vestfjarða. 

Verkefnalýsing

Unnið var að gerð Menntastefnu Vestfjarða árið 2022 og söfnun gagna og greining aðgerða hefur verið unnin. Eftir á að halda lokafundi aðgerðarhóps og móta lokaskref verkefnisins.

Að því loknu er hægt að senda Menntastefnu til allra sveitarfélaga til samþykktar og úrvinnslu.

Árangursmælikvarðar

Menntastefna samþykkt í sveitastjórnum

Menntastefna kynnt fyrir hagaðilum

Lokaafurð:

Birt Menntastefna Vestfjarða og hún samþykkt af öllum sveitarfélögum

Kynning á menntastefnu Vestfjarða hafi farið fram

Menntastefna tengd aðgerðum sveitarfélaga og menntastofnana

Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Samstarfsaðilar: Leik- og grunnskólar á Vestfjörðum, Menntaskóli Ísafjarðar, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og sveitarfélögin á Vestfjörðum
Ráðuneyti: Mennta- og barnamálaráðuneyti
Tímarammi: apríl-des 2023
Framlag úr Sóknaráætlun: Kr. 3.000.000- 

 

Samstarfsverkefni í orkumálum - Blámi

 

Markmið

Að efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna. Með orkuskiptum er átt við að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Markmiðið er að ýta undir orku- og loftslagstengda nýsköpun, efla frumkvöðla og styrkja nýsköpunarumhverfið á Vestfjörðum

Verkefnalýsing

Ætlunin með Bláma er að leiða saman aðila sem geta unnið saman við það að afla alþjóðlegs fjármagns til tilrauna, rannsókna og þróunar á orku- og loftslagsvænum lausnum. Með nýjum tækifærum og auknu samstarfi á milli fyrirtækja og opinberra aðila er hægt að ýta undir að verkefni og tækifæri sem skapast á svæðinu þróist í átt að hringrásarhagkerfi, þar sem verðmætasköpun úr vannýttu hráefni er aukin, bæði úr því sem er til staðar og því sem verður til vegna nýrra verkefna eða framleiðslu.

Blámi er samstarfverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu.

Árangursmælikvarðar

Aðgerðir og umfjöllun um orkuskipti

Umsóknir um erlenda og innlenda styrki til verkefna á sviði loftslags- og orkumála

Lokaafurð:

Fyrirtæki og sveitarfélög á Vestfjörðum verði sýnilegir og virkir þátttakendur í orkuskiptum og til verði nýsköpunarverkefni á sviði orkumála á Vestfjörðum.

Framkvæmdaraðili: Blámi
Tímarammi - 2021-2024
Framlag úr Sóknaráætlun 2023 - Kr. 7.500.000.-