Fara í efni

Menning

Á Vestfjörðum er blómlegt menningarlíf. Í gegnum tíðina hefur heimafólk verið iðið við að bæta lífskilyrði við ysta haf með öflugu lista- og menningarlífi. Grasrótarstarf hefur verið öflugt og má sem dæmi nefna áhugaleikfélög og kóra sem hafa skapað grundvöll fyrir skapandi samverustundir fyrir þá sem taka þátt og gefandi afrakstur fyrir aðnjótendur. Lista- og menningarstarf í fjórðungnum er þó ekki einungis áhugamál sem fólk dundar sér við í frístundum. Teljandi fjöldi á Vestfjörðum sem hefur atvinnu innan menningar- og skapandi greina og fjöldi fólks hefur sótt sér menntun á þeim sviðum. Menning og afþreying er raunverulegt byggðamál sem skiptir máli, það er ráðandi þáttur í byggðafestu hér á landi og getur haft úrslitavald yfir því hvort fólk telji staði almennt vænlega til búsetu. Það er því mikið til þess að vinna að tryggja stoðkerfi menningarlífsins svo það fái sem best þrifist í fjórðungnum.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða hefur verið einn helsti bakhjarl menningar og nýsköpunar á Vestfjörðum allt frá því er hann veitti fyrst styrki árið 2015. Í dag er úthlutað úr Uppbyggingarsjóði einu sinni á ári, umsóknarfrestur rennur út í októbermánuði og kemur í ljós í byrjun desember hvaða verkefni hafa hlotið brautargengi úr sjóðnum til komandi árs.

Menningarfulltrúi landshlutanna

Skúli Gautason hefur verið menningarfulltrúi Vestfjarða frá árinu 2016 og er hann með starfsstöð á Hólmavík. Innan landshlutanna er almennt lagt mikið upp úr samstarfi við aðra landshluta á sem flestum sviðum og er menningin þar sannarlega ekki undanskilin. Menningarfulltrúar landshlutanna hittast reglulega á fjarfundum og bera saman bækur sínar. Auk þess hafa þau hist að jafnaði tvisvar á ári á staðfundum, annað skiptið á landsbyggðinni og hitt í Reykjavík.  

Söfn og sýningar

Á Vestfjörðum er á fjórða tug safna og sýninga. Byggðasöfn, minjasöfn og aðrar gerðir sem leggja áherslu á að miðla vestfirskum menningarsérkennum og sögu svæðisins. Árið 2021 vann Vestfjarðastofa skýrslu í samstarfi við söfn á Vestfjörðum um stöðu þeirra og samstarfsmöguleika. Skýrsluna má finna hér til hliðar

Starfsmaður

Tengd skjöl

Safnaskýrsla
Menningarstefna Vestfjarða 2007

Tengdir málaflokkar