"Lífið er einstefna - leiðin er áfram"
Sigríður eða Sirrý eins og allir þekkja hana er uppalin í Hnífsdal, ættuð þaðan og frá Bolungarvík en býr á Ísafirði. Hún er með MSc gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst og er framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.
Sirrý elskar röð og reglu og finnst fátt skemmtilegra en að skipuleggja viðburði og gerir það þá yfirleitt með hjálp ítarlegs hugarkorts. Sirrý var lengi yfirlýstur antisportisti en það er þetta með örlögin að núna hefur hún gerst ofurkörfuboltamamma sem hikar ekki við að eyða heilu helgunum í íþróttamót.
„Lygn streymir Don“
Aðalsteinn er búsettur á Ísafirði er er Hnífsdælingur af hjarta og sál. Aðalsteinn lærði sjávarútvegfræði í Tromsö og er með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu frá HÍ. Hann er sviðsstjóri byggðasviðs Vestfjarðastofu.
Aðalsteini finnst fátt jafn endurnærandi og að kúpla sig út og fara yfir í Grunnavík og njóta þess þar að fá að vera utan þjónustusvæðis. Það eina sem kemst nálægt þessari gleði hjá Aðalsteini eru góðir barokktónleikar.
„Þú getur tekið stelpuna úr sveitinni en ekki sveitina úr stelpunni“
Magnea er sveitastelpa uppalin á mjólkurbúi í Eyjafirði en hefur búið á Ísafirði síðan 2008. Magnea er með BA í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. Magnea heldur utan um Sóknaráætlun og Uppbyggingarsjóð ásamt því að sjá um innri mál hjá Vestfjarðastofu
Magnea hefur voða gaman af því að kíkja erlendis til spennandi borga og njóta menningar og matar. Sveitin kallar þó alltaf og finnst Magneu ekkert betra en að kíkja í Eyjarfjörðinn og fá smá sveitailm og mömmumat.
„Njóta, ekki þjóta!“
Margrét eða Gréta eins hún er yfirleitt kölluð er fædd og uppalin á Ísafirði. Gréta sér um bókhald fyrir Vestfjarðastofu auk þess sem hún sér um almennt skrifstofuhald og önnur skipulagsmál.
Gréta er dugleg að ferðast og flakkar mikið en það eru þó fáir staðir sem hún nýtur sín jafn vel á og í heita pottinum í garðinum heima hjá sér.
„Menning er það sem gerir okkur að mönnum“
Skúli er fæddur í vesturbænum í Reykjavík en bjó lengi á Akureyri. Hann er búsettur á Hólmavík. Skúli er með MA gráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst en starfaði lengst af sem leikari. Þessi menntun hentar einkar vel enda heldur Skúli meðal annars utan um menningarverkefni Vestfjarðastofu.
Skúli er menningarviti Vestfjarðastofu enda leikstýrt fjölda leiksýninga, en hann er einnig þekktur fyrir að stofna og leika með hljómsveitinni Sniglabandinu.
„Dream, Travel, Repeat“
Þórkatla er uppalin á Patreksfirði, hún er með BA gráðu í mannfræði og lauk MA námi í þróunarfræði og alþjóðasamskiptum við Álaborgarháskóla. Þessi fjölbreytta menntun hentar mjög vel enda sinnir Þórkatla fjölbreyttum verkefnum innan Vestfjarðastofu.
Þórkatla elskar að ferðast og vera á flakki og hefur verið búsett víða. Nú síðast var hún búsett í Danmörku og Suður Afríku. En þótt hún ferðist langt þá finnst henni ljúft að vera loksins komin aftur heim.
Guðrún Anna Finnbogadóttir
„Hugsaðu jákvætt, það er léttara“
Guðrún Anna er fædd og uppalin á Ísafirði en er í dag búsett á Patreksfirði. Guðrún Anna er menntaður sjávarútvegsfræðingur frá HA og er með MSc í umhverfisstjórnun frá Álaborgarháskóla. Guðrún Anna hefur starfað í sjávarútvegsfyrirtækjum sem framleiðslu og gæðastjóri en jafnframt við rannsóknir og ráðgjöf bæði hjá MATÍS á Íslandi og Tecnologisk Institute í Danmörku.
Guðrún Anna hefur einstaklega gaman af því að fara í göngutúra og lætur helst ekki góða bók framhjá sér fara.
„Hvernig sem hlutirnir fara – þá fara þeir alltaf einhvernvegin"
Annska er sjálfskipaður Ísfirðingur. Slóðir forfeðranna liggja á Vestfjörðum sem og á Snæfellsnesi þar sem hún sleit barnsskónum. Hún hefur komið víða við þegar litið er til starfreynslu; hefur migið í saltan sjó, ræktað nýjan skóg og verið í slorinu. Hún hefur tekið að sér ýmiskonar viðburða- og verkefnastjórnun, unnið sem blaðamaður, auk þess sem hún hefur unnið mörg störf innan ferðaþjónustu. Annska er með B.A. gráðu í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri og meistaragráðu í menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Hún er verkefnastjóri miðlunar hjá Vestfjarðastofu og hefur hún meðal annars umsjón með útgáfu og upplýsingamálum.
Listir, menning og mannlíf eru helstu hugðarefni hennar og þreytist hún ekki á að velta fyrir sér óþrjótandi eiginleikum mannsandans. Ferðalög með fjölskyldunni eru með því skemmtilegasta sem hún veit, en að sama skapi fyllir góður göngutúr í heimahögunum rækilega á sálartankinn.
„Menn eiga að hafa vit á því að vera í góðu skapi“ – Dúddi á Skörðugili
Sigurður er fæddur og uppalin á Lækjamóti í Húnaþingi vestra, en bjó í Lundúnum í tvo áratugi og lærði þar leiklist, og tók MA gráðu í menningarstjórnun frá Lundúnaháskóla. Hann er verkefnisstjóri Sterkra Stranda og með aðsetur á Hólmavík.
Fyrir utan að leikstýra 60 leikritum hefur Sigurður unnið stjórnunarstarf hjá risafyrirtækinu Expedia og verið framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands. Hann er yfirleitt of upptekinn til að eiga áhugamál og er óvirkur hestamaður í dag. Ólíkt flestum jafnöldrum sínum hefur hann engan áhuga á því að gefa út hlaðvarp.
"Forvitni og orð eru til alls fyrst"
Magnús er fæddur og uppalin á Ísafirði, en bjó lengst af fyrir sunnan þar til hann sneri aftur árið 2012. Hann er með BS gráðu í viðskiptafræði frá HÍ og MSc gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Gautaborgarháskóla. Magnús mun sinna verkefnum á sviði nýsköpunar- og fjárfestinga með það að meginmarkmiði að efla byggð og atvinnulíf á svæðinu.
Magnús stundar kayakróður og útivisti til heilsubótar, en honum finnst nálægð við hafið einstaklega endurnærandi. Annars veit hann fátt betra en að detta í gott spjall eða grúska í einhverjum fróðleik.
„Lífið er stutt, ef þú staldrar ekki stöku sinnum við og lítur í kringum þig, þá gætir þú misst af því“ – Ferris Bueller
Sölvi er fæddur og uppalinn á malbikinu í Kópavogi en flutti til Bolungarvíkur árið 2020 með fjölskyldu sinni. Hann lagði stund á hagfræði í HÍ og hefur lokið MLM gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum við Bifröst. Hann hefur víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu, allt frá almennri leiðsögn, rekstri, öryggis og gæðamálum. Sölvi sinnir verkefnum ferðaþjónustu og kynningarmálum fyrir Vestfjarðastofu.
Þrátt fyrir það að Sölvi sé að þúsaldarkynslóðinni er hann ekki með TikTok, á hvorki rafmyntir né NFT. Hann unir sér best í vatni hvort sem það er að flatmaga í pottinum í Bolungarvík, stýra gúmmíbát niður straumvatn eða dóla út á firði á paddleboardi.
“Hlutirnir hafa þá tilhneigingu að ganga upp”
Steinunn er fædd á Blönduósi og uppalin í Kópavogi en kolféll fyrir Vestfjörðum árið 2018 þegar hún ákvað að breyta til og skella sér í Lýðskólann á Flateyri. Síðan þá hefur hún vart snúið til baka og vill hvergi annars staðar vera.
Steinunn hefur vítt áhugasvið sem hentar vel þar sem hún sinnir hinum ýmsu verkefnum hjá Vestfjarðastofu, allt frá ferðaþjónustu yfir í byggðamál. Hún er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og er að ljúka MPA námi í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. Steinunn hefur líkt og fleiri starfsmenn Vestfjarðastofu mikinn áhuga á leiklist og leiðist ekki að standa á sviði, hvort sem það er í leikriti, kór eða því allra skemmtilegasta, karaoke.
Steinunn er í fæðingarorlofi og kemur aftur til starfa í byrjun nóvember 2024.
„Áfram veginn“
Hjörleifur sleit barnsskónum í Kópavogi, áður hann lagðist í heimshorna- og landshlutaflakk sem endaði á Ísafirði 2019 þar sem hann lærði Haf-og strandsvæðastjórnun í Háskólasetri Vestfjarða. Hjörleifur álítur nóvember heilagan mánuð þar sem ekkert má trufla rjúpnaveiðar, nema ef skyldi vera koma snjór til að skíða.
Hjörleifur er verkefnastjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu, og er það í takti við fyrri störf hans sem hafa snúist um útivist, ferðamennsku, umhverfis- og náttúrvernd.
"You're entirely bonkers. But I'll tell you a secret. All the best people are." - Lewis Carroll
Kristín er fædd og uppalin á Ísafirði og fór í raun aldrei suður. Kristín sér um skjalaflokkun og önnur tilfallandi verkefni sem tengjast skrifstofunni.
Kristín er mikil tónleikakona en fáir tónlistarmenn komast að með tærnar þar sem Michael Bublé hefur hælana. Hún hefur líka nýlega uppgvötað mikin áhuga á plöntum, saumaskap og að góðar glæpasögur róa hugann.
„Áfram gakk"
Vilborg er fædd í Reykjavík en hefur búið víðsvegar um landið ásamt því að hafa dvalið erlendis í nokkur ár. Í dag býr hún á Ísafirði. Bakgrunnur hennar er þjóðfræði og safnafræði. Vilborg kemur inn í teymi ferðaþjónustunar ásamt því að sinna verkefnum tengd byggðamálum.
Vilborg hefur mörg áhugamál en það skemmtilegasta sem hún gerir er að ferðast með fjölskyldunni, hlusta á tónlist, heimsækja söfn og vinna að skógrækt í sveitinni sinni.