Gullkistan Vestfirðir – glæsileg sýning og góð aðsókn
Mikið var um dýrðir Í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði á laugardaginn þegar stórsýningin Gullkistan Vestfirðir fór fram. Um áttatíu ólíkir sýnendur tóku þátt og mikil menningardagskrá var í gangi allan daginn. Sýnendur komu frá öllum svæðum Vestfjarða, allt frá einyrkjum til stórfyrirtækja. Vestfjarðastofa fór með skipulagningu sýningarinnar og er óhætt að segja að við séum himinsæl með hvernig til tókst. Gleðin í íþróttahúsinu Torfnesi var hreinlega áþreifanleg. Við vorum þó sannarlega ekki ein í að gera sýninguna svo glæsilega úr garði líkt og raun varð, því valinn maður var í hverjum rúmi.
09. september 2025