Kaldrananeshreppur hóf göngu sína í verkefninu Brothættar byggðir á miðju ári 2025. Áætlað er að verkefnið vari í fimm ár til loka ársins 2030. Á íbúaþingi sem haldið var 4. - 5. október 2025 völdu íbúar heitið Jú víst! Kraftur í Kaldrana fyrir verkefnið.
Meginmarkmið:
- Fjölbreytt atvinnulíf
- Samheldið samfélag
- Öflugir innviðir
- Auðlindir í þágu samfélagsins
Frumkvæðissjóður
Frumkvæðissjóður Jú víst! Kraftur í Kaldrana veitir styrki á tímabili verkefnisins og býður verkefnisstjóri upp á ráðgjöf fyrir áhugasama, bæði hvað varðar hugmyndavinnu og gerð umsókna.
Umsækjendum er bent á:
- Að kynna sér vel verkefnisáætlun Jú víst! Kraftur í Kaldrana, þ.m.t. framtíðarsýn og markmið.
- Að lesa verklags- og úthlutunarreglur Byggðastofnunar sem eru hér til hliðar
- Að kynna sér eftirfarandi eyðublöð sem finna má hér til hliðar: umsóknareyðublað, lokaskýrslueyðublað, tímaskýrslu og fjárhagsyfirlit verkefnis. Tvö síðastnefndu eyðublöðin eru hugsuð til að auðvelda styrkþegum undirbúning umsóknar og gerð lokaskýrslu. Útfyllt skjölin geta fylgt sem viðhengi með umsókn eða lokaskýrslu eftir því sem við á.
- Að bóka tíma hjá verkefnisstjóra fyrir ráðgjöf um hugmyndir og umsóknarskrif.
Umsóknareyðublaði skal skila til verkefnisstjóra á netfangið valgeir@vestfirdir.is.
Valgeir Jens Guðmundsson er verkefnastjóri Jú víst! Kraftur í Kaldrana og tók hann til starfa í ágúst 2025.
Verkefnisstjórn skipa:
Anna Björg Þórarinsdóttir, fulltrúi íbúa
Helga Harðardóttir, fulltrúi Byggðastofnunar og formaður stjórnar
Hildur Aradóttir, fulltrúi Kaldrananeshrepps
Kristján Þ. Halldórsson, fulltrúi Byggðastofnunar
Mikael Rafn Steingrímsson, fulltrúi íbúa
Skúli Gautason, fulltrúi Vestfjarðastofu
Um Kaldrananeshrepp:
Kaldrananeshreppur í Strandasýslu nær frá Selá í Steingrímsfirði í suðri að Spena, sem er norðan við Kaldbaksvík. Í hreppnum er þorpið Drangsnes, staðsett á Selströnd, norðan við Steingrímsfjörð. Kaldrananeshreppur spannar um 470 ferkílómetra og hefur verið sveitarfélag í meira en þúsund ár. Íbúar eru 127 árið 2025.
Í hreppnum eru jarðir sem njóta ýmissa hlunninda, þar á meðal viðarreka og æðarvarps. Við ströndina eru víða eyjar og sker, þar á meðal Grímsey, þar sem tugþúsundir lunda og annarra sjófugla verpa. Jarðhita er að finna víða og stutt er á fengsæl fiskimið. Í þorpinu Drangsnesi er smábátaútgerð og fiskvinnsla. Þar er einnig miðstöð sveitarfélagsins, skóli, félagsheimili og kaupfélag, auk annarrar af tveimur sundlaugum hreppsins; hin er á Klúku í Bjarnarfirði.
Nokkuð er um áhugaverðar fornleifar, þar á meðal hvalstöðvar frá 17. öld í Hveravík og á Eyjum, og rústir af verbúðum víða við ströndina. Skarðsrétt í Bjarnarfirði, mikið mannvirki hlaðið úr torfi frá upphafi 20. aldar, er einnig athyglisverð, aldursfriðuð en enn í notkun. Vinsæl afþreying ferðamanna eru heitir pottar í fjöruborðinu á Drangsnesi, reglulegar siglingar út í Grímsey og Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði, sem er hluti af Galdrasýningu á Ströndum.
Ferðaþjónusta hefur byggst upp síðustu áratugina í Bjarnarfirði og á Drangsnesi, með tveimur hótelum auk gistiheimila og sumarhúsa. Sauðfjárrækt, skógrækt og ylrækt eru víða stunduð og bætt fjarskipti gera íbúum kleift að stunda vinnu hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum.
Starfsmaður verkefnis
Tengd skjöl
Skilaboð íbúaþings í Kaldrananeshreppi, október 2025
Verkefnisáætlun Jú víst! Kraftur í Kaldrana
Verklag Byggðastofnunar um úthlutun styrkja
Form fyrir fjárhagsyfirlit v. umsóknar eða lokaskýrslu styrks úr frumkvæðasjóði
Tímaskýrsla-lokaskýrslu vegna styrks úr frumkvæðasjóði
Frumkvæðissjóður - Framvindu- eða lokaskýrsla
Frumkvæðissjóður Kaldrananeshreppi - Umsóknareyðublað