Fara í efni

Íbúar Kaldrananeshrepps fjölmenntu á íbúafund Jú víst! Kraftur í Kaldrana

Fjölmargir áhugasamir íbúar Kaldrananeshrepps mættu á íbúafund sem haldinn var þriðjudaginn 11. nóvember sl. í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Tilgangur fundarins var að fylgja eftir hugmyndum íbúa um eflingu samfélagsins sem spruttu fram á tveggja daga íbúaþingi sem haldið var í byrjun októbermánaðar. Verkefnisstjórn hefur síðan þá unnið að gerð verkefnisáætlunar, sem byggir á skilaboðum íbúa frá íbúaþinginu.

Verkefnastjóri Jú víst! Kraftur í Kaldrana Valgeir Jens Guðmundsson kynnti drögin að verkefnisáætluninni fyrir íbúum, þ.m.t. framtíðarsýn, SVÓT greiningu verkefnisstjórnar, fjögur meginmarkmið og samtals 61 starfsmarkmið sem falla undir meginmarkmiðin. Íbúum var því næst skipt í fjóra hópa þar sem umræður um verkefnisáætlunina voru líflegar og ábendingum komið á framfæri.

Að því loknu fékk verkefnisstjórn umboð til að ljúka við gerð verkefnisáætlunar að teknu tilliti til ábendinga íbúa, og gefa hana formlega út til birtingar. Verkefnisáætlunin verður síðan helsta leiðarljósið í verkefninu næstu fimm árin. Árlega munu íbúar svo meta stöðu verkefnisins verður og geta þeir þar sett fram ný starfsmarkmið, forgangsraðað og/eða breytt starfsmarkmiðum.

Kristján Þ. Halldórsson frá Byggðastofnun kynnti á fundinum niðurstöður íbúakönnunar sem gerð var og voru niðurstöður hennar að mörgu leiti jákvæðar og sýna glöggt hversu mikill samtakamáttur er á meðal íbúa í samfélaginu. Einnig var sama dag birt á vef Byggðastofnunar greinargerð Sigurborgar Kr. Hannesdóttur frá íbúaþinginu og má sjá hana hér.

Næstu skref
Gert er ráð fyrir því að ljúka verkefnisáætlun á næstu dögum og í kjölfarið að opna fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Jú víst! Kraftur í Kaldrana 1. desember n.k. Gert er ráð fyrir að hægt verði að úthluta styrkjum til hvers kyns frumkvæðisverkefna íbúa fljótlega á nýju ári.