Fara í efni

Við erum til þjónustu reiðubúin!

Fréttir

Kæri atvinnurekandi á Vestfjörðum

Margir eru nú í óvissu með framtíð síns rekstrar. Á vegum stjórnvalda hafa verið kynnt ýmis úrræði en enn er óvíst um framkvæmd þeirra og hvað þau í raun þýða fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Við fylgjumst með framvindunni og miðlum upplýsingum til fyrirtækja í landshlutanum. Við höfum síðustu daga hringt út til fyrirtækja og sveitarfélaga til að kanna stöðuna. Við heyrum á þeim sem við tölum við að óvissan tekur í og margir eru skiljanlega áhyggjufullir um framhaldið.

Verkefnastjórar okkar eru til þjónustu reiðubúnir – endilega heyrið í okkur, bæði ef ykkur vantar aðstoð en líka til að leyfa okkur að fylgjast með hver staðan er svo við getum miðlað sem bestum upplýsingum til stjórnvalda um stöðuna í landshlutanum hverju sinni.

Við verðum stöðugt að minna okkur á að þetta er tímabundið ástand sem tekur enda.

Nokkur góð ráð:

  • Passið upp á heilsuna, bæði andlega og líkamlega. Góður göngutúr eða léttar líkamsæfingar heimavið létta lundina og gera okkur gott.
  • Hugið að starfsfólkinu ykkar og gerið það sem þið getið til að viðhalda ráðningarsambandi við það, svo ekki þurfi að ráða nýtt fólk með tilheyrandi kostnaði þegar allt er yfir staðið.
  • Verið í góðu sambandi við ykkar stærstu viðskiptavini og birgja. Góð og opin samskipti eru lykill að því að semja um framhaldið ef þörf verður á því.
  • Fylgist vel með úrræðum stjórnvalda og hvað mun nýtast ykkur í ykkar rekstri. Á heimasíðu Vestfjarðastofu www.vestfirdir.is er yfirlit yfir úrræðin sem uppfært er um leið og breytingar verða eða útfærslur skýrast.
  • Leitaðu til einhvers af verkefnastjórunum okkar til að fá aðstoð við að uppfæra áætlanir, endurskipuleggja reksturinn eða fá ráð varðandi endurfjármögnun þegar sá tími kemur. Hér er hægt að finna símanúmer og netföng: https://www.vestfirdir.is/is/vestfjardastofa/starfsfolk
  • Nú er hjá mörgum tíminn sem aldrei kemur – þegar róast….nýtum hann í að vinna verkefnin sem við höfum ekki komist í, uppfæra heimasíðuna, vinna markaðsefni, taka til á skrifstofunni, þrífa o.s.frv.

Við Vestfirðingar höfum oft séð hann svartan og eins og áður mun hin Vestfirska seigla koma okkur í gegnum storminn. Aðstæður eru vissulega meira krefjandi nú en oft áður en við munum komast í gegnum þetta – með góðri samvinnu og stuðningi hvers annars.

Áfram Vestfirðir!