Mikið var um dýrðir í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði á laugardaginn þegar stórsýningin Gullkistan Vestfirðir fór fram. Um áttatíu ólíkir sýnendur tóku þátt og mikil menningardagskrá var í gangi allan daginn. Sýnendur komu frá öllum svæðum Vestfjarða, allt frá einyrkjum til stórfyrirtækja. Vestfjarðastofa fór með skipulagningu sýningarinnar og er óhætt að segja að við séum himinsæl með hvernig til tókst. Gleðin í íþróttahúsinu Torfnesi var hreinlega áþreifanleg. Við vorum þó sannarlega ekki ein í að gera sýninguna svo glæsilega úr garði líkt og raun varð, því valinn maður var í hverjum rúmi og þar að auki lögðu sýnendur mikinn metnað í að gera básana sína fallega og skemmtilega.
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir setti stórsýninguna Gullkistuna í íþróttahúsinu á Torfnesi að loknum upphafstónum Blásarasveitar Tónlistarskóla Ísafjarðar. Að lokinni setningu gekk Halla um sýninguna og spjallaði við sýnendur og fjölmarga gesti sem leið sína lögðu á sýninguna.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Guðmundur Ingi Kristinsson mennta-og barnamálaráðherra heimsóttu einnig sýninguna og Hanna Katrín ávarpaði samkomuna.
Í sal Menntaskólans á Ísafirði voru flutt fróðleg erindi sem náðu yfir vítt svið allt frá erindi um framtíðarskipulag Vestfjarða, fjárfestingar, nýsköpun og að lokum erindi Guðna Th. Jóhannessonar um Þorskastríðið.
Tónlist var leikin á tveimur stöðum, á stóru sviði í salnum og á torginu sem staðsett var í anddyrinu. Þá prýddu listaverk eftir vestfirskt listafólk veggi í anddyrinu.
Við viljum þakka öllum sem að sýningunni komu með einum eða öðrum hætti og einnig viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna og með því stuðla að gleðinni sem ríkti.