Fara í efni

Gullkistan Vestfirðir – blásið í lúðra klukkan 12!

Blásarasveit TÍ mun blása í lúðra klukkan 12 á hádegi í íþróttahúsinu Torfnesi og þar með hefst stórsýningin Gullkistan Vestfirðir. Klukkan 12:20 mun forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, formlega opna sýninguna, í beinu framhaldi af því mun kvennakór Ísafjarðar taka nokkur lög. Klukkan 16 mun síðan atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, ávarpa samkomuna. 

Í gær var íþróttahúsinu á Torfnesi umbreytt í stórglæsilegan sýningarsal og hafa sýnendur verið í óðaönn að koma sér fyrir til að geta tekið á móti Vestfirðingum og öðrum gestum klukkan 12. Sýning sem þessi hefur ekki verið haldin á Ísafirði í aldarfjórðung og er óhætt að segja að mikil eftirvænting ríki fyrir þessari miklu veislu.

Auk þess að geta kynnt sér þau fjölmörgu fyrirtæki sem verða á staðnum verður glæsileg menningardagskrá í gangi allan daginn. Jafnframt verður hliðardagskrá í Menntaskólanum á Ísafirði með spennandi erindum. Þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því að vera svangur, því matarvagnar verða á staðnum.

Öll eru velkomin á Gullkistu Vestfjarða – enginn aðgangseyrir.