Fara í efni

Grænt og vænt handverk í heimabyggð

Fréttir Verkefni Uppbyggingasjóður Vestfjarða
Myndin er fengin af heimasíðu Fjöruperlur.is með leyfi frá eiganda.
Myndin er fengin af heimasíðu Fjöruperlur.is með leyfi frá eiganda.

Eitt af þeim verkefnum sem hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða árið 2020 er verkefnið Grænt og vænt handverk í heimabyggð. Kristín Þórunn Helgadóttir listamaður hefur síðustu árin unnið sjálfstætt við framleiðslu á eigin  skartgripum og höggvið út styttur úr rekavið. Vinnustofa hennar er staðsett á Þingeyri og þar  skapar hún fallega hluti úr efniviði sem hún sækir beint úr náttúrinni.  Árið 2014 fékk Kristín Frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar og sama ár var hún valin Handverksmaður ársins á handverkssýningu í Hrafnagili. 

Verkerfið sem styrkt var árið 2020 snerist um að listamaðurinn Kristín hefði opna vinnustofu sumarið 2020 þar sem gestir og gangandi gátu komið og séð hvernig listamaðurinn vann að sinni listsköpun. Vegna aðstæðna í samfélaginu var ekki eins mikið um ferðamenn árið 2020 en styrkur úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða gerði henni kleift að vera með opna vinnustofu meiri hluta sumarsins. Á vinnustofunni voru til sýnis skartgripir úr klóþangi og  útskurður úr rekavið, en hún hefur einnig verið að skapa þar allt frá smáum hlutum upp í stórar styttur sem höggnar eru út í rekavið.  Verkefnið Grænt og vænt handverk í heimabyggði snerist því líka um að sýna þeim sem áhuga höfðu, allt um ferlið sem verður til þegar skartgripir eru unnir úr klóþangi og hvernig þeir enda að lokum sem fallegir skartgripir.  Við bendum fólki á að skoða síðu Kristínar Fjöruperlur, en þar er hægt að finna fallega skartgripi þar sem litir, munstur og form náttúrunnar fá að njóta sín.