Fara í efni

Auglýst eftir umsóknum í frumkvæðissjóð Jú víst! Kraftur í Kaldrana

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í frumkvæðissjóð Jú víst! Kraftur í Kaldrana, sem er yfirstandandi verkefni Brothættra byggða í Kaldrananeshreppi. Meginmarkmið verkefnisins eru fjögur: Fjölbreytt atvinnulíf, samheldið samfélag, öflugir innviðir og auðlindir í þágu samfélagsins. Umsóknir þurfa að taka mið af þessum markmiðum og hafa samhljóm við eftirfarandi framtíðarsýn verkefnisins:

Samfélagið í Kaldrananeshreppi hefur nýtt sér verkefnið „Jú víst! Kraftur í Kaldrana“ til fulls og samfélagið hefur blómstrað á verkefnistímanum, bæði mannlíf og atvinnulíf. Íbúðum hefur fjölgað, m.a. með samstarfi sveitarfélags og leigufélaga. Nýtt atvinnuhúsnæði hefur einnig bæst við og búið er að gera átak í nýtingu á jarðhita í öllu sveitarfélaginu. Bæði Drangsnes og sveitabýlin í hreppnum eru til fyrirmyndar varðandi umhverfi, umgengni og viðhald eigna og hafin er skjólbeltarækt á Drangsnesi. Íbúar hafa tekið sig saman og bætt ásýnd og aðstöðu á völdum stöðum sem nýtast almenningi til útivistar og afslöppunar. Ýmis listaverk prýða nú áningarstaði í dreif- og þéttbýli. Atvinnutækifærum hefur fjölgað og með tilkomu þeirra hefur íbúum fjölgað. Sjávarútvegur er áfram grunnatvinnuvegur og hefur vaxið fiskur um hrygg, m.a. með auknum aflaheimildum og vinnslu. Við það bætist að tilraun sem gerð var til eldis og sjálfvirkra veiða í sjó hefur skilað góðum árangri og nýjum störfum. Landeldi á silungi og laxi hefur einnig náð góðri fótfestu í byggðarlaginu. Aukinn straumur ferðamanna er í Kaldrananeshrepp allt árið um kring samfara aukinni vetrarþjónustu og ferðaþjónustan er í örum vexti. Einkum er lögð áhersla á menningar- og heilsutengda ferðaþjónustu og hvers kyns útivist. Ný sprotafyrirtæki hafa litið dagsins ljós og þjónusta í nærumhverfinu hefur aukist.

Umsóknarfrestur er til miðnættis sunnudagsins 18. janúar, 2026. Úthlutunarreglur er hægt að nálgast hér á vef Byggðastofnunar. Þar er meðal annars fjallað um skyldur styrkþega og hverskonar verkefni eru styrkhæf verkefni þar sem meðal annars kemur fram hvað ekki er styrkt. Umsóknareyðublað í frumkvæðissjóðinn má finna hér og skal því skilað inn til verkefnisstjóra. Nánari upplýsingar og ráðgjöf veitir Valgeir Jens Guðmundsson, verkefnisstjóri, í síma 823-0003 eða á netfangið valgeir@vestfirdir.is.

Allt um Jú víst! Kratur í Kaldrana er að finna á verkefnasíðu þess hér