Fara í efni

Vestfirskur sköpunarkraftur yrkisefni nýrrar bókar

Fréttir Uppbyggingasjóður Vestfjarða

Út er komin bókin Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda. Í tilefni útgáfunnar var heilmikil dagskrá sl. laugardag á Ísafirði. Fyrst var boðið til dagskrár í Safnahúsinu sem hófst með opnun sýningarinnar Úr kúltíveruðum kindarhausnum: sýning bóka frá Vestfjörðum og Ströndum. Þar gefur að líta bækur með fjölbreyttar vestfirskar tengingar. Á sýningunni má glögglega sjá hversu ötulir Vestfirðingar hafa verið við að stinga niður penna og hvernig svæðið og íbúar þess hafa verið innblástur og yrkisefni margra höfunda. Sýningin er á annarri hæð Gamla sjúkrahússins og verður opin næstu tvær vikurnar.  

Eiríkur Örn Norðdahl opnaði sýninguna og í kjölfarið var gestum boðið að hlýða á nokkur erindi um bókina. Fyrstur tók til máls Ingi Björn Guðnason, sem er annar ritstjóra bókarinnar og rakti hann tilurð og innihald þessa glæsilega ritverks. Birna Bjarnadóttir sem einnig ritstýrði bókinni tók líka til máls, auk Ármanns Jakobssonar fyrir hönd útgefandans, Hins íslenska bókmenntafélags. Um kvöldið var svo skemmtidagskrá í Edinborgarhúsinu þar sem nýrri og eldri vestfirskum menningarafurðum var miðlað í tali og tónum.

Menning við ysta haf hefur að geyma greinar um vestfirskar bókmenntir og menningu frá miðöldum fram á okkar daga. Greinarhöfundar eru fræðimenn og rithöfundar frá Íslandi, Kanada og Danmörku og fluttu nokkrir þeirra erindi á hinum tvískipta útgáfufögnuði. Útgáfa bókarinnar er lokapunktur verkefnisins Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og byggja greinar hennar að hluta á erindum sem flutt voru á viðburðum verkefnisins á Hrafnseyri og Ísafirði á árunum 2017-2021. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða styrkti gerð bókarinnar.