Fyrsta farsældarþing Vestfjarða var haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði föstudaginn 7. nóvember og tókst það sérlega vel. Um 80 manns komu þar saman úr ólíkum áttum; starfsfólk sveitarfélaga, skóla, heilbrigðis- og félagsþjónustu, félagasamtaka, íþróttahreyfinga, menningarstofnana, kjörnir fulltrúar sveitarfélaga, bæjar- og sveitarstjórar ásamt fleirum sem vinna að málefnum barna og fjölskyldna um allt land.

Stemningin á þinginu var jákvæð, hlý og uppfull af samstöðu. Rætt var um tækifærin sem felast í samvinnu og samþættingu þjónustu, mikilvægi þess að hlusta á raddir barna og ungmenna og hvernig við getum byggt upp samfélag sem styður öll börn til farsældar. Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með dagskrána og umræðurnar sem sköpuðust. Mörgum þótti sérstaklega dýrmætt að fá tækifæri til að hittast þvert á störf og fagsvið.

Það var sameiginleg niðurstaða gesta að Farsældarþingið hafi verið innblástur og mikilvæg áminning um að farsæld barns verður ekki til í einni stofnun, heldur í samvinnu.
Dagskrá Farsældarþingsins var þétt af erindum sem vörðuðu málaflokkinn með beinum hætti. Þá leiddu fulltrúar úr Ungmennaráði Vestfjarða pallborðsumræður með vestfirskum sveitarstjórum og fulltrúum þeirra. Í kjölfarið var Farsældarráð Vestfjarða formlega stofnað af sveitarfélögunum á Vestfjörðum. Næsta skref í þeirri vinnu er að fá tilnefningar um fulltrúa frá þeim stofnunum og samtökum sem eiga aðild að ráðinu og hefjast handa við að tryggja farsæld allra barna á Vestfjörðum meðal allra þjónustuveitenda.

Það var Erna Lea Bergsteinsdóttir verkefnisstjóri farsældar hjá Vestfjarðastofu sem skipulagði þingið og var hún afar sátt með hvernig til tókst:
„Farsældarþing Vestfjarða var lifandi dæmi um það sem farsældarlögin standa fyrir. Það er samvinnu, tengsl og samþættingu þjónustu. Greinilegt er að Vestfirðingar eru tilbúnir til að skapa farsæld í verki þvert á stofnanir og staði.“
