Fara í efni

Vestfirðingar forvitnir um stuðningskerfi nýsköpunar á Íslandi

Fréttir

Það var margt um manninn á Vestfjarðastofu á þriðjudaginn er fram fór viðburðurinn Nýsköpun og ný tengsl og augljóst að Vestfirðingar voru áhugasamir um stuðningskerfi nýsköpunar á Íslandi. Að fundinum komu KLAK, Íslandsstofa, Vísindagarðar og Tækniþróunarsjóður, sem brugðu sér í snögga hringferð um landið til að kynna stuðningsumhverfi nýsköpunar. Jafnframt var stutt kynning á starfsemi Vestfjarðastofu.

KLAK – Icelandic Startups er meðal fremstu stuðningsaðila nýsköpunar í Evrópu samkvæmt Financial Times. KLAK rekur öfluga og metnaðarfulla dagskrá allt árið sem miðar að því að styrkja einstaklinga með hugmyndir og fyrirtæki í vexti með fræðslu, tengslaneti og markvissum stuðningi. Í því samhengi má nefna Gulleggið sem hefur hleypt mörgum áhugaverðum nýsköpunarverkefnum af stokkunum.

Tækniþróunarsjóður styður fjölbreytt nýsköpunarverkefni með styrkjum frá hugmyndastigi til markaðsvæðingar. Sjóðurinn býður m.a. upp á Fræ, Sprota-, Vöxt- og Markaðsstyrki og styður einnig einkaleyfa- og rannsóknarverkefni.

Vísindagarðar fóstra samfélag þar sem háskólar, fyrirtæki og rannsóknarstofnanir vinna saman að skapandi lausnum á helstu áskorunum samtímans. Þeir reka meðal annars Mýrina þar sem nýsköpunarsenan blómstrar.

Íslandsstofa sinnir markaðssetningu fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar og styður íslensk fyrirtæki í sókn á erlenda markaði. Aðgengi að alþjóðamörkuðum, erlend fjármögnun og uppbygging tengslanets er meðal þess sem þar er unnið að fyrir hönd íslenskra fyrirtækja.

Markmið fundanna var að auka aðgengi að upplýsingum og stuðningi og byggja ný tengsl milli frumkvöðla, fyrirtækja og aðila í nýsköpunarumhverfinu. Var þessari viðleitni vel tekið á Ísafirði og sköpuðust líflegar umræður í lok erinda. Sérstaklega var kallað eftir auknum sýnileika og samstarfi við landsbyggðina sem oft skortir aðgengi að þeirri þjónustu sem auðveldar er að nálgast á höfuðborgarsvæðinu.