Fara í efni

Vel heppnað orkuskiptamálþing á Ísafirði

Í gær fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði málþingið Af hverju orkuskipti – loftslags- og orkuskiptaáætlanir sveitarfélaga. Góð mæting var og almenn ánægja með það sem þar fór fram meðal þátttakenda. Flutt voru sex ólík erindi um loftslagsbreytingar og nauðsynleg viðbrögð við þeim. Í lokin voru pallborðsumræður með fyrirlesurum þar sem mikið var rætt um álitamál í samhengi við hlutverk sveitarfélaga í málaflokknum.

Málþingið markaði upphafið að þeirri vinnu sem nú fer í hönd með sveitarfélögunum við gerð loftslags- og orkuskiptaáætlana. Hjörleifur Finnsson sem er verkefnastjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu mun leiða þá vinnu. Það sem knýr vinnuna áfram er annars vegar samþykkt Fjórðungssamband Vestfirðinga að hefja gerð loftslagsstefnu og hins vegar þátttaka í evrópuverkefninu RECET þar sem lokaafurðin á að vera orkuskiptaáætlun fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum.

Á vormánuðum verður haldið áfram með kynningar og samráð við almenning og hagsmunaaðila á opnum fundum um gerð Svæðisskipulag Vestfjarða og Sóknaraáætlun fjórðungsins.

Í næstu viku verður fjallað betur um einstök erindi á málþinginu og myndbönd af þeim birt.