Miðvikudaginn 29. október fór fram fyrsta úthlutunarathöfn Frumkvæðissjóðs Fjársjóðs fjalla og fjarða, í Handverksmarkaði Össu í Króksfjarðarnesi. Mæting var mjög góð og ríkti þar frábær stemning, gleði og mikill frumkvöðlakraftur.
Alls bárust 21 umsókn, þar sem sótt var um 59.794.374 krónur, og heildarkostnaður verkefnanna nemur 159.713.637 krónum. Að þessu sinni hlutu 16 verkefni styrk, samtals 11 milljónir króna, og er styrkþegum óskað innilega til hamingju!
Embla Dögg Bachmann, verkefnisstjóri, flutti ávarp og lagði áherslu á mikilvægi þess að styðja við góðar hugmyndir og frumkvæði á upphafsstigi. Í máli sínu minnti hún á að þó fimm verkefni hefðu ekki hlotið styrk að þessu sinni væri mikilvægt að halda áfram að þróa hugmyndir.
Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, flutti einnig ávarp og óskaði styrkþegum innilega til hamingju. Hann hvatti til áframhaldandi nýsköpunar og þakkaði fyrir öfluga þátttöku.
Fyrir hönd stjórnar Fjársjóðs fjalla og fjarða voru viðstaddar Guðlaug G.I.M. Bergsveinsdóttir og Hrefna Jónsdóttir sem tóku virkan þátt í athöfninni ásamt verkefnisstjóra.

Styrkþegar 2025
- Eydís Örk Sævarsdóttir / Gálgklettur – Gufsan – samkomuhús – 800.000 kr.
- UMF Afturelding – Framkvæmdastjóri UMF Aftureldingar – 1.250.000 kr.
- UMF Afturelding – Allir hjóla – 500.000 kr.
- Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum – Braggi á Reykhólum – endurbætur og lagfæringar – 700.000 kr.
- Báta- og hlunnindasýningin ehf. – Skilti – merking við Þjóðveg 60 – 250.000 kr.
- Báta- og hlunnindasýningin ehf. – Lifandi bátasýning – 600.000 kr.
- Erla Þórdís Reynisdóttir – Sauma-/vinnustofa og hannyrðamiðstöð – 400.000 kr.
- Ferðaþjónustan Djúpadal – Fjölgun gistirýma – 1.000.000 kr.
- Framfarafélag Flateyjar – Eyjaþing 2026 – 500.000 kr.
- Furðufuglar – Fuglaskilti – 1.000.000 kr.
- Úr sveitinni ehf. (BSF11 ehf.) – Fjós… allra meina bót… – 1.000.000 kr.
- Guðlaug G.I.M. Bergsveinsdóttir – Gull-Þórir á kortið – 900.000 kr.
- Guðlaug G.I.M. Bergsveinsdóttir – Upphaf upptöku – 70.000 kr.
- Handverksfélagið Assa – Kaffihús Össu, Króksfjarðarnesi – 350.000 kr.
- Laugavík hf. – Þaraböðin í Breiðafirði – Reykhólum – 1.280.000 kr.
- Þórdís Halla Sigmarsdóttir & Hrólfur Ingi S. Eggertsson – Vinnustofa til námskeiðahalds – 400.000 kr.
Embla Dögg var afar ánægð með þessa fyrstu úthlutun úr frumkvæðissjóðnum:
„Viðburðurinn var einstaklega vel heppnaður og sýndi þann mikla metnað og styrk sem býr í samfélaginu. Við hlökkum til að fylgjast með verkefnunum vaxa og dafna á næstu misserum.
Ég óska öllum styrkþegum hjartanlega til hamingju og minni jafnframt á að þeir mega hafa samband hvenær sem er í framkvæmdaferlinu vegna ráðgjafar, leiðbeininga eða hvatningar.“
Fjársjóður fjalla og fjarða er verkefni Brothættra byggða í Reykhólasveit og hófst það formlega með íbúaþingi þar í sveit í mars á þessu ári.

