Uppbyggingarhluti áfangastaðaáætlunar Vestfjarða er nú kominn út – í fyrsta sinn á nýjum vef áfangastaðaáætlunar Vestfjarða!
Markaðsstofur landshlutanna hafa síðustu tvö ár unnið saman að því að samræma framsetningu áfangastaðaáætlana um allt land, sem auðveldar yfirsýn og utanumhald.
Á sama tíma hefur verið unnið að því að efla verklag áfangastaðaáætlunar Vestfjarða. Nú er lögð meiri áhersla en áður á samvinnu við sveitarfélögin þegar verkefni eru mótuð. Fyrsti afraksturinn af þeirri vinnu er nú aðgengilegur á vefnum: yfirlit yfir uppbyggingarverkefni hvers sveitarfélags á Vestfjörðum.
Uppbyggingarverkefni eru skilgreind verkefni á afmörkuðu svæði sem tengjast staðbundinni uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu, hvort sem hún er í höndum sveitarfélaga eða einkaaðila. Oft er um að ræða svæði þar sem þörf er á bættri stýringu ferðamanna, verndun náttúru eða auknu öryggi. Markvissari stefnumótun og samvinna aðila er lykilatriði í að stuðla að þróun ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum og er þetta liður í því. Skilgreind uppbyggingarverkefni eru jafnframt höfð að leiðarljósi þegar kemur að úthlutunum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.