Fara í efni

Unglingar í Vesturbyggð spreyta sig í kvikmyndagerð

Fréttir Barnamenningarhátíðin Púkinn

Barnamenningarhátíðin Púkinn verður haldin um alla Vestfirðir dagana 27. apríl – 8. maí 2026, en þegar eru hafin verkefni á vegum hátíðarinnar sem munu auðga líf Vestfirskra barna fram yfir hátíð. Í síðasta mánuði kom í ljós að Púkinn hefði hlotið styrk úr Erasmus+ áætluninni fyrir verkefni á unglingastigi og í vikunni fór fram fyrsti liður þess.

Púkinn hefur átt í frábæru samstarfi við UngRIFF sem hefur boðið upp á námskeið víða um fjórðunginn en í vikunni heimsótti þeirra helsti maður Erlingur Óttar Thoroddsen unglingana í Vesturbyggð, sem skemmtu sér konunglega við stuttmyndagerðina. Lærðu þau grunninn í handritagerð, tökum og jafnvel að kynna gripinn að framleiðslu lokinni.

Krakkar í Vesturbyggð hafa áður fengið að læra tökin á heimildamyndagerð á Skjaldbökunni sem haldin hefur verið í tenglum við Púkann, svo verið er að sá fræjum sem við vitum ekki enn hvernig koma til með að blómstra inn í fjarlægri framtíð.

Boðið verður upp á kvikmyndagerðarnámskeið víðar og mun afraksturinn líta dagsljósið á Púkanum.