Fara í efni

Umsagnir til Alþingis og í Samráðsgátt

Fréttir

Hagsmunagæsla er einn þáttur í starfi Vestfjarðastofu/FV og meðal aðgerða tengdum hagsmunagæslu eru umsagnir um frumvörp og mál sem sett eru inn í Samráðsgátt stjórnvalda. Skrif á umsögnum eru nokkuð tímafrek vinna þannig að umsagnir eru aðeins skrifaðar um þau mál sem mestu skipta fyrir Vestfirði. Vestfjarðastofa skrifar einnig aðeins umsagnir um mál þar sem hagsmunir allra sveitarfélaga á svæðinu fara saman. Við skrif á umsögnum þarf að leita til hagsmunaaðila, sveitarfélaga, stjórna og nefnda sem málin varða. 

Á vordögum hafa verið skrifaðar umsagnir um fjögur mál, um ferðagjöfina sem er hluti af átaki stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum af heimsfaraldri. Þar bendir Vestfjarðastofa á að stuttur gildistími ferðagjafar geti haft neikvæð áhrif á þá sem unnið hafa að uppbyggingu á vetrarferðaþjónustu til að draga úr árstíðarsveiflu. Umsögn var einnig skilað um frumvarp til laga um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs þar sem Vestfjarðastofa lýsir áhyggjum af því að aðgerðirnar nái ekki að grípa vanda sem við blasir á Vestfjörðum þar sem markaðir fyrir sjávar- og fiskeldisafurðir höfðu þá þrengst mjög og afurðaverð lækkað. Auk þess var bent á sérstaka stöðu Vestfjarða vegna einhæfni atvinnulífs og árstíðasveiflu ferðaþjónustu. 

Skrifuð var umsögn um samvinnuverkefni í Vegagerð fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga þar sem lýst er áhyggjum af því að möguleg samvinnuverkefni geti reynst áhættusöm fyrir ríkissjóð vegna óvissu um hve langan tíma mun taka að byggja aftur upp ferðaþjónustu. 

Að síðustu var umsögn skilað í Samráðsgátt vegna frumvarps til breytinga á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða þar sem lýst er stuðningi við hið mikilvæga skref sem þar er tekið til að stuðla að svæðisbundinni þróun sem byggð sé á skipulagi og áætlunum einstakra landshluta þ.e. áfangastaðaáætlun. Einnig bent á mikilvægi þess að furmvarpið eigi að styðja við uppbyggingu "kaldari svæða" og að höfð séu að leiðarljósi efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif hvers verkefnis.  Vestfjarðastofa gerir hins vegar athugasemdir við skilgreiningu á hugtakinu "Ferðamannaleið" og varar við að það verði skilgreint svo þröngt að það ekki verði hægt að styðja við þróun ferðamannaleiða tengdum akvegum. Er þá átt við þróun aðra en byggingu vega sem tengist ferðamannaleiðum.