Fundaröð Markaðsstofu Vestfjarða um þróun ferðaþjónustu hélt áfram 9. maí með tveimur fundum í Café Riis á Hólmavík. Annars vegar var haldin vinnustofa fyrir ferðaþjónustuaðila um vetrarferðaþjónustu og hins vegar opinn samráðsfundur um gerð nýrrar áfangastaðaáætlunar fyrir Vestfirði.
Vinnustofa um vetrarferðaþjónustu
Á vinnustofunni komu saman ferðaþjónustuaðilar úr Dölunum, Ströndum og Djúpinu. Fundargestir fóru yfir helstu áskoranir sem blasa við þegar kemur að uppbyggingu vetrarferðaþjónustu og unnu saman að því að greina tækifæri og lausnir.
Margar skapandi og hagnýtar hugmyndir komu fram um vetrarafþreyingu sem gæti hentað svæðinu, og var rætt hvernig megi þróa söluhæfa ferðapakka fyrir erlendar ferðaskrifstofur. Vinnustofan er hluti af tveggja ára verkefni á vegum Markaðsstofu Vestfjarða sem hlaut styrk frá ráðherra ferðamála og miðar að því að efla ferðaþjónustu utan háannatíma, með áherslu á vetrartímann.
Samráðsfundur um áfangastaðaáætlun Vestfjarða
Í beinu framhaldi af vinnustofunni var haldinn opinn fundur um áfangastaðaáætlun Vestfjarða. Fundurinn var í formi umræðu og vinnustofu þar sem íbúar og ferðaþjónustuaðilar frá Ströndum og Reykhólahreppi komu saman og lögðu sitt af mörkum við mótun framtíðarstefnu í ferðaþjónustu.
Áhersla var lögð á að gefa þátttakendum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og ræða jafnvægi milli þarfa gesta, íbúa, fyrirtækja og umhverfis. Slíkt samráð er mikilvægur liður í gerð stefnumarkandi áætlunar sem stuðlar að ábyrgri og sjálfbærri uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu.
Við þökkum öllum sem mættu á fundina kærlega fyrir virkt og metnaðarfullt framlag.