Fara í efni

Starfsáætlun Vestfjarðastofu 2023

Fréttir

Hlutverk Vestfjarðastofu er að styðja einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög á Vestfjörðum við að ná árangri á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar. Vestfjarðastofa er í forsvari gagnvart stjórnvöldum, sinnir markaðssetningu og svæðasamstarfi á Vestfjörðum. Í þessu skyni ýtir Vestfjarðastofa undir, styður og skapar vettvang samstarfs milli ofangreindra aðila og hefur að leiðarljósi að vinna að hagsmunum allra Vestfjarða, samfélagsins umhverfisins og efnahagslífsins. 

Starfsáætlun Vestfjarðastofu fyrir árið 2023 var samþykkt á stjórnarfundi þann 18. janúar síðastliðinn. Áherslur ársins 2023 eru  uppbygging, nýsköpun, sérkenni, miðlun og menntun auk loftslagsmála og hringrásarhagkerfisins. Þessar áherslur skipta máli við áherslur í verkefnavali og verkefnum stofnunarinnar. 

Áfram verður áhersla lögð á verkefni sem eflt geta og ýtt undir nýsköpun og fjárfestingar á svæðinu og rík áhersla lögð á vöruþróun í starfandi fyrirtækjum.

Sem fyrr er hagsmunagæsla fyrir svæðið viðamikill hluti starfsemi Vestfjarðastofu og þar eru raforkumál, samgöngur og fjarskipti mikilvægustu þættirnir en menntun kemur nú sem fyrirferðarmikill þáttur í bæði hagsmunagæslu og sem hluti af stórum verkefnum. Þekkingarstig íbúa svæðisins er einn helsti drifkraftur þróunar svæðisins og því skiptir miklu máli að hækka menntunarstig með markvissum aðgerðurm. 

Starfsfólk Vestfjarðastofu mun sem fyrr leggja sig allt fram um að vinna að verkefnum ársins og við hlökkum til samstarfsins við frumkvöðla, fyrirtæki og sveitarfélög á árinu. 

Starfsáætlun 2023