Fara í efni

Starfsáætlun Vestfjarðastofu 2022

Fréttir

Vestfjarðastofa ýtir undir, styður og skapar vettvang samstarfs milli sveitarfélaga, fyrirtækja, frumkvöðla og einstaklinga á Vestfjörðum. Meginstef í öllu starfi Vestfjarðastofu er að vinna að hagsmunum allra Vestfjarða, samfélagins, umhverfisins og efnahagslífsins með langtímahugsun að leiðarljósi. 

Áherslur ársins 2022 eiga að endurspegla þetta hlutverk stofnunarinnar og er samstarf, samtal og miðlun efst á blaði og gegnumgangandi í öllum verkefnum.

Á sviði atvinnuþróunar eru leiðarljósin nýsköpun og verðmætasköpun. Hagsmunagæslan snýst um samfélagið allt, orku, innviði og auðlindir.

Áfram verður áhersla lögð á verkefni sem eflt geta og ýtt undir nýsköpun og fjárfestingar á svæðinu og rík áhersla lögð á vöruþróun í starfandi fyrirtækjum.

Knýja þarf fram niðurstöðu varðandi raforkumál á Vestfjörðum til að svæðið verði samkeppnishæft við aðra landshluta til atvinnuppbyggingar og verðmætasköpunar á næstu árum. Afhendingargeta og afhendingaröryggi raforku eru lykilþættir framtíðarþróunar og það gengur ekki lengur að Vestfirðir séu alltaf, alltaf, alltaf aftasti vagninn í lestinni hvað varðar stór innviðamál.

Vetrarþjónusta á vegum er annað stórt hagsmunamál fyrir svæðið og huga þarf að því hvernig byggja má upp öflug atvinnusvæði þrátt fyrir annmarka núverandi samgöngumannvirkja. Svona þangað til röðin kemur að Vestfjörðum með næstu göng þarf vetrarþjónusta á vegum innan atvinnusvæða að verða miklu betri en hún er í dag.

Verkefnin eru því ærin og við göngum glöð til verka ársins 2022.

Starfsáætlun 2022