Fara í efni

Sendinefnd um fiskeldi í Færeyjum

Færeyjar
Færeyjar

Í byrjun apríl fór 37 manna viðskiptasendinefnd frá Íslandi til Færeyja að kynna sér fiskeldi og allt því tengdu, þar á meðal Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. Það var einstaklega vel tekið á móti sendinefndinni og naut hún mikillar gestrisni Færeyinga.

Sendinefndin fékk fyrirlestra frá helstu vísindamönnum Færeyja í fiskeldi, heimsótti fiskeldisfyrirtæki, fóðurframleiðanda, fjölda iðnfyrirtækja sem þjónusta fiskeldið og sveitarfélög. Það sem vakti sérstaka athygli var gróskan og krafturinn í öllum greinum og samstaðan.

Fiskeldið er ein af undirstöðuatvinnugreinum Færeyinga en yfir 90% af vöruútflutningi þeirra eru sjávarafurðir og útflutningur á eldislaxi er um helmingur af því. Heildarútflutningur á eldislaxi var tæplega 120 þús. tonn árið 2021 að verðmæti um 600 milljóna evra.

Evrópa er enn stærsti markaðurinn fyrir eldislax frá Færeyum en Kína, Bandaríkin og Rússland hafa einnig verið stórir markaðir. Færeysk fiskeldisfyrirtæki tóku sig saman fyrir áratug og fóru í sameiginlegt markaðsátak undir kjörorðinu „Lax frá Færeyjum“ en þeir ákváðu að hætta að bera sig saman við Norðmenn og fóru að leggja áherslu á sérstöðu færeyska laxins. Áherslan var á að segja söguna að um sé að ræða einstaka vöru sem framleidd er í takmörkuðu magni, gæðin séu framúrskarandi og við framleiðslu er lögð áhersla á sjálfbærni. Þessi markaðsherferð hitti í mark sem endurspeglast í því að Færeyingar fá hærra verð að meðaltali en bæði Norðmenn og Íslendingar fyrir sínar afurðir.

Lagarammi fiskeldisins í Færeyjum er mjög skýr en það sem er einkennandi er að aðeins er veitt leyfi fyrir einn framleiðanda í hverjum firði og eru eldissvæðin þrjú í landinu. Gæðaeftirlitið er mjög strangt og það koma opinberir eftirlitsaðilar að því og sem dæmi koma eftirlitsaðilar og mæla laxalús á fjórtán daga fresti í hverri kví hjá fiskeldisfyrirtækjunum. Leyfin eru gefin út til 12. ára og hægt að fá framlengingu ef allar kröfur eru uppfylltar en enginn einn aðili má eiga meira en 50% af heildarframleiðslunni.

Fiskeldi hefur ekki ætið verið dans á rósum hjá Færeyingum og hafa þeir gengið í gegnum tvö tímabil mikillar samþjöppunar í greininni en það voru 67 fyrirtæki á níundaáratuginum en þar eru nú þrjú stór fiskeldisfyrirtæki starfandi Bakkafrost, Hiddenfjord og Mowi. Hvert fyrirtæki hefur sitt eldissvæði og er ábyrgt fyrir nýtingu svæðisins til að minnka líkur á smitsjúkdómum milli svæða og fyrirtækin eru ábyrg fyrir umhverfisáhrifum af eldinu á sínu svæði.

Eitt helsta vandamálið sem laxeldið er að glíma við er laxalús og ein leið til að minnka skaðleg áhrif hennar er að stytta tímann í opnum sjókvíum og þróunin er að setja stærri fisk út. Farið er að setja 600 g fiska út og jafnvel stærri en þetta þýðir að umsvifin í landeldinu aukast þar sem laxinn er lengur í lokuðum kvíum á landi.

Öflugt rannsóknarstarf er í kringum fiskeldið og hjá Fiskaaling – Aquaculture Research Station starfa 30 sérfræðingar sem sérhæfa sig í rannsóknum tengdum fiskeldi.

Megið stefið hjá fyrirtækjunum er sjálfbærni, þróa umhverfisvænni lausnir við framleiðsluna og að byggja greinina upp til framtíðar með bestu mögulegu lausnunum. Það er mikilvægt að samfélögin styrkist með greininni og mátti sjá mikla uppbyggingu til dæmis í Klakksvík þar sem verða byggðar 200 nýjar íbúðir á næsta ári til að svara eftirspurninni eftir húsnæði og það verður byggður fótboltaleikvangur þar sem uppfyllir alþjóðlega staðla því félagsliðið þeirra KÍ Klakksvík hefur verið að standa sig vel.

Samstaða og samvinna er meginstefið sem íslenska sendinefndin kom með heim úr þessari ferð og allir fá sína hlutdeild af velgengninni.