Fara í efni

Samfélagsleg nýsköpun til umfjöllunar í fyrstu Forvitnu frumkvöðlum ársins

Fréttir MERSE

Fyrsta erindi ársins í fyrirlestraröð landshlutasamtakanna, Forvitnir frumkvöðlar, var haldið þann 6. janúar. Að þessu sinni var erindið sniðið að sérstakri tegund frumkvöðlastarfs þ.e. samfélagslegri nýsköpun og bar það yfirskriftina Þegar íbúar móta framtíðina: samfélagsleg nýsköpun í þágu byggðaþróunar. Af þátttökunni mátti sjá að margir létu sig málið varða en um 60 manns mættu í fundarherbergið í netheimum.

Þær Steinunn Ása Sigurðardóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir, verkefnastjórar hjá Vestfjarðastofu stóðu í stafni, en þær eru í evrópska samstarfsverkefninu MERSE (2023–2026), sem styrkt er af Norðurslóðaáætluninni (NPA).

Í erindinu var fjallað um samfélagslega nýsköpun með sérstaka áherslu á dreifðar byggðir. Skoðað var hvað greindi samfélagslegan rekstur frá öðrum rekstri. Jafnframt var varpað ljósi á hvernig samfélagsleg nýsköpun á landsbyggðinni getur verið öflugt byggðaþróunartæki, ekki vegna þess að glæný vara sé sett á markað, heldur vegna þess að hún fyllir upp í þjónustugöt sem einkaframtakið og hið opinbera sinna ekki.

Kynntar voru niðurstöður þverþjóðlegrar rannsóknar MERSE sem sýnir meðal annars að samfélagsfyrirtæki eru oft rekin til lengri tíma, með djúpar rætur í nærumhverfinu, og gegna lykilhlutverki í að halda samfélögum gangandi. Það er mikið virði fólgið í verkum þessara frumkvöðla fyrir samfélagið, en þeim reynist stundum örðugt að mæla og sýna fram á ávinninginn, sem MERSE meðal annars reynir að svara.

Einnig var fjallað um helstu áskoranir samfélagslegrar nýsköpunar, svo sem ótrygga fjármögnun, skort á skilningi og þá staðreynd að stuðningskerfi eru sjaldan sniðin að þessari tegund reksturs. Fjallað var um hvernig hægt er að skapa samfélagslegri nýsköpun frjórri jarðveg, meðal annars með auknum stuðningi og samstarfi sveitarfélaga, opinberri stefnu sem gerir ráð fyrir samfélagslegu virði og aukinni meðvitund um samfélagsrekstur. Þá voru dregin fram dæmi frá öðrum löndum, einkum Írlandi, þar sem samfélagsleg nýsköpun er orðin hluti af opinberri byggða- og atvinnustefnu, meðal annars með sértækri ráðgjöf, lánveitingum og markvissri áætlanagerð í þágu samfélagslegra þarfa.

Hér má nálgast upptöku af erindinu

Forvitnir frumkvöðlar standa fyrir hádegiserindum fyrsta þriðjudag í mánuði fram í júní, þar sem frumkvöðlar og áhugasöm geta fengið fjölbreytta fræðslu sem nýtist í ólíkum viðfangsefnum nýsköpunar og reksturs. Næsta erindi verður haldið 3. febrúar og er það helgað fjármögnunarmöguleikum nýsköpunar. Þar verður farið yfir ólíkar leiðir til fjármögnunar og hvaða úrræði standa frumkvöðlum til boða. Nánari upplýsinga er að vænta bráðlega.