Fara í efni

RECET verkefninu miðar vel áfram

Fréttir RECET

Nýtt fréttabréf evrópuverkefnisins RECET – Rural Europe for the Clean Energy Transition er komið út. Vestfjarðastofa tekur þátt í verkefninu og leikur Ísland þar veigamikið hlutverk bæði sem tilraunasvæði og í framhaldinu sem fyrirmynd fyrir önnur dreifð svæði og eyjasamfélög í Evrópu.

Kjarninn í aðferðafræði RECET er skýr: orkuskipti eru ekki einungis tæknilegt verkefni, heldur samfélagslegt ferli sem krefst trausts, þátttöku og staðbundins eignarhalds, en til að orkuskipti í dreifðum byggðum takist vel þurfa þau að byggja á staðbundinni þekkingu, víðtæku samráði og samfélagslegri þátttöku.

Í gegnum RECET verkefnið á Íslandi hafa Eimur, Samband sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) og Vestfjarðastofa unnið með sveitarfélögum að mótun svæðisbundinna áætlana fyrir orkuskipti og loftslagsmál.

Á Norðurlandi eystra liggur nú fyrir sameiginleg loftslagsáætlun allra sveitarfélaga SSNE. Í þeirri vinnu var meðal annars nýttur aðgerðabanki RECET, sem varð til í kjölfar vinnustofa sem voru haldnar með sveitarfélögum á Vestfjörðum og norðurlandi eystra.

Á Vestfjörðum voru orkuskipta- og loftslagsmál voru fléttuð inn í Svæðisskipulag Vestfjarða, sem nú er í samráðsferli. Samhliða hefur Vestfjarðastofa haldið vinnustofur með hverju og einu sveitarfélagi, þar sem unnið hefur verið að loftlagsstefnu og tilheyrandi aðgerðum. Lykilatriði í þeirri vinnu hefur verið innleiðing losunarbókhalds frá Klöppum, sem eykur gagnsæi og styður við eftirfylgni og mat á árangri aðgerða í rauntíma.

Orkuskipti í smábáta í sjávarútvegi

Vestfjarðastofa og Eimur héldu á síðasta ári málþing um orkuskipti smábáta og hafna, þar sem fjallað var um tæknilegar lausnir, kostnaðaráskoranir og samfélagsleg áhrif rafvæðingar smærri fiskiskipa. Niðurstaðan var skýr: tæknin er til staðar, en áfram þarf markvissan stuðning, samræmda stefnu og náið samstarf ríkis, sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að tryggja að dreifðar sjávarbyggðir verði ekki skilin eftir.

Aðgerðabanki orkuskipta og loftslagsmála

Ein stærsta umfjöllun fréttabréfsins snýr að vinnu RECET-aðila á Norðurlandi eystra. Þar héldu Eimur og SSNE röð vinnustofa með tíu sveitarfélögum, þar sem unnið var út frá framtíðarsýn samfélaganna og skilgreindar raunhæfar aðgerðir í orkuskiptum og loftslagsmálum. Afraksturinn er aðgerðabanki með 49 aðgerðum, flokkaðar eftir þemum á borð við orkuskipti, samgöngur, orkunýtni og fræðslu, sem nú er nýttur við mótun svæðisbundinnar loftslagsstefnu. Á næstu misserum verður aðgerðabankinn gerður opinber.

Orkusamvinnufélag og lægri orkukostnaður

Fréttabréfið dregur einnig fram þróun orkusamfélaga á Íslandi. Þau eru enn á frumstigi en vaxandi áhersla er lögð á þau, einkum í köldum svæðum þar sem raforka er notuð til húshitunar. Í Kelduhverfi á Norðurlandi eystra var haldinn íbúafundur á vegum Eims sem leiddi til stofnunar orkusamvinnufélags. Þar eru meðal annars skoðaðir möguleikar á varmadælum og smærri sólarorkukerfum til að draga úr orkukostnaði heimila og jafnframt lækka útgjöld ríkisins vegna niðurgreiðslna.

Ísland sem lærdómssvæði fyrir Evrópu

Í fréttabréfinu er ítrekað að reynsla Íslands – með dreifðum byggðum, háu hlutfalli endurnýjanlegrar orku og ólíkum áskorunum veiti dýrmætan lærdóm fyrir önnur evrópsk jaðarsvæði. RECET sýnir hvernig samfélagsdrifnar lausnir og staðbundin þátttaka geta verið lykillinn að farsælum orkuskiptum.

Fréttabréfið má lesa hér

 

Frá málþingi um orkuskipti smábáta og hafna