Fara í efni

Ráðstefna um sæskrímsli

Fréttir Uppbyggingasjóður Vestfjarða
Jón Baldur Hlíðberg lýsir sæskrímslum
Jón Baldur Hlíðberg lýsir sæskrímslum

Ráðstefna var haldin á Skrímslasetrinu á Bíldudal laugardaginn 13. maí sl. Megintilgangur ráðstefnunnar var að leiða saman áhugafólk um sæskrímsli, en stórt verkefni um sæskrímsli verður unnið fyrir Listahátíð í Reykjavík 2024. Sú sýning mun síðan ferðast um landið.

Ráðstefnustjóri var dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur. Á ráðstefnunni rakti Valdimar Gunnarsson uppbyggingu Skrímslasetursins á Bíldudal. Dagrún og Jón Jónsson, þjóðfræðingur af Ströndum, kynntu síðan hvernig sæskrímsli birtast í þjóðsögum og munnlegri geymd. Þrír landkunnir teiknarar sem allir hafa teiknað skrímsli, tröll og aðrar kynjaverur mættu á ráðstefnuna, þeir Jón Baldur Hlíðberg, Magnús Óskarsson og Brian Pilkington. Þeir fóru m.a. yfir eðli skrímsla, hreyfigetu þeirra og matarvenjur. Rithöfundurinn Hildur Knútsdóttir flutti erindi. Hún hefur gefið út fjölda bóka þar sem kynjaverur koma við sögu og m.a. verið tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bækurnar Ljónið og Skógurinn. Félagar úr sirkuslistahópnum luku ráðstefnunni með smiðju þar sem unnið var með hreyfimöguleika skrímsla á þurru landi. Ráðstefnan var vel sótt og í heild einstaklega vel heppnuð. 

Ráðstefnan var haldin af Listahátíð í Reykjavík og Skrímslasetrinu. Hún var styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.