Barnamenningarhátíðin Púkinn hefur hlotið styrk úr áætluninni Erasmus+ sem á að nýtast til að þjálfa vestfirska unglinga til að skoða umhverfi sitt með myndrænum augum í gegnum linsu kvikmyndavélarinnar. Erasmus+ er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál. Styrkurinn nemur 20.100 evrum, en það jafngildir tæplega þremur milljónum íslenskra króna.
Fengið verður reynt kvikmyndagerðarfólk til að kenna unglingunum grunnatriði og góða siði í kvikmyndagerð, hvað varðar handritagerð, tökur, klippingu og frágang. Lögð verður áhersla á inngildingu og umhverfisvæna nálgun á verkefninu.
Verkefnið verður unnið í samstarfi við grunnskóla á Vestfjörðum og afurðirnar verða sýndar á Púkanum, sem verður haldinn dagana 27. apríl - 8. maí 2026.