Piff hátíðin (Pigeon International Film Festival) hefst í Ísafjarðarbíói í dag og stendur fram á sunnudagkvöld. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða hefur verið einn helsti bakhjarl hátíðarinnar og er einnig svo með hátíðina í ár.
Opnunarhátíðin hefst kl. 17 og er öllum opin. Boðið verður upp á léttar veitingar. Von er á um 40 gestum erlendis frá sem fylgja myndum sínum eftir. Strax á eftir verður sýnd kvikmyndin Spark frá Kasakstan en hún fylgir eftir drengnum Akan sem hefur brennandi tónlistaráhuga en fær lítið pláss fyrir músíkina í harðneskjulegu lífi sínu í afskekktu þorpi. Hann þarf að finna jafnvægi milli þess að vera góður sonur og lífsköllunar sinnar. Mannleg þroskasaga sem lætur engan ósnortin. Leikstjóri myndarinnar er kominn til Vestfjarða til þess að sitja fyrir svörum að myndinni lokinni.
Því næst verður sýnd kvikmyndin Silent Storms frá Gíbraltar sem segir frá syrgjandi blaðamanni sem þarf að takast á við yfirnáttúrulega hluti í bland við náttúruhamfarir þegar látin eiginkona hans snýr aftur til hans einmitt þegar ógnandi sandstormar færast nær.
Lokamynd kvöldsins er svo Moses sem fjallar um heimilislausan mann í Bandaríkjunum sem reynist eiga ótrúlegt lífshlaup og býr yfir miklum tónlistarhæfileikum.
Margt annað spennandi verður í gangi næstu daga. Í fyrramálið verður viðburður í samstarfi við Menntaskólann á Ísafirði er stuttmyndir frá ýmsum löndum verða sýndar í Ísafjarðarbíói. Myndirnar gefa sýnishorn inn í íranskan kvikmyndaheim, danskan, króatískan, franskan og loks íslenskan. Að sýningu lokinni sitja kvikmyndagerðarmenn fyrir svörum nemenda.
Allar sýningar hátíðarinnar eru gestum að kostnaðarlausu. Helstu styrktaraðilar hennar eru auk Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða, kvikmyndastofnun, Ísafjarðarbær og ýmis fyrirtæki.
Dagskránna í heild má finna á piff.is.