Fara í efni

Orkuþing Vestfjarða 2023 - það er ekki annaðhvort eða heldur bæði!

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga Innviðir
Tinna Rún Snorradóttir, rannsóknar- og þróunarstjóri hjá Bláma
Tinna Rún Snorradóttir, rannsóknar- og þróunarstjóri hjá Bláma

Orkuþing Vestfjarða 2023 var haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði þann 12. apríl s.l.. Þingið var afar vel sótt að hálfu íbúa á Vestfjörðum auk fulltrúa atvinnulífs, félaga, stofnana, sveitarfélaga og ráðuneyta, alls um 90 manns.

Orkumál Vestfirðinga hafa verið lengi í umræðunni, en þróun síðustu ára þrýstir á að nú þarf að taka ákvarðanir um stærri áfanga en teknir hafa verið til þessa. Viðfangsefni Orkuþingsins var að gefa þeim aðilum sem koma að verkefnum er varða orkumál á Vestfjörðum, tækifæri að kynna stöðu sinna verkefna, upplýsa um hindranir, hvað hefur áunnist og hver eru næstu skref. Eins var tekið til umfjöllunar, framtíðarhorfur í orkumálum varðandi eftirspurn og þætti sem þurfa að vera til staðar í orkuskiptum á Vestfjörðum og líkleg áhrif á samfélag og atvinnulíf landshlutans. 

Helstu niðurstöður þingsins voru;

  • Nýjar vatnsaflsvirkjanir. Bygging vatnsaflsvirkjunar að lágmarki 25 MW eða stærri innan Vestfjarða og tenging við flutningsnet er grundvallar þáttur í úrlausn orkumála á Vestfjörðum. Virkjanakostir sem samþykktir hafa verið í Rammaáætlun þ.e. Austurgilsvirkjun og Ófeigsfjarðarvirkjun á Ströndum geta afhent slíkt afl, sömuleiðis virkjunarkostur í Vatnsdal í Vatnsfirði sem er í athugun. Áætlaður undirbúnings og framkvæmdatími þessara virkjana er mismunandi en er um 4 til 8 ár eftir verkefnum, en þar er Austurgilsvirkjun næst í tíma. Í undirbúningi er síðan allt að 10 MW vatnsaflsvirkjun í Steingrímsfirði.
  • Efling flutningskerfis. Tenging nýrra virkjana stærri en 25 MW, eru áfangar í tvöföldun Vesturlínu en uppbygging tengipunkts í Ísafjarðardjúpi er þar lykilþáttur. Aflaukning sem hér um ræðir mun auka afhendingaröryggi á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum um 90%. Samhliða stórminnka flutningstöp um Vesturlínu og afköst línunnar myndu aukast úr 50 í 150 MW.
  • Tenging nýrra virkjana munu leysa af varaafl sem knúið er jarðefnaeldsneyti í dag, en uppsett varaafla til raforkuframleiðslu getur framleitt um 28 MW og 12 MW afl olíukatla tengt fjaravarmaveitum. Á árinu 2022 nam notkun jarðefnaeldsneytis til hitunar 2,1 milljón lítrum auk notkunar varaafls.
  • Óvissa með vatnsréttindi. Til að hefja framkvæmdir við virkjanir, þarf að fá niðurstöðu við erindi Vesturverks til ríkisins, um eignarhald og afstöðu ríkisins í tengslum við kröfugerð Óbyggðanefndar varðandi nýtingu vatnsréttinda á Ófeigsfjarðarheiði. Eins þarf að fá afstöðu ríkisins til erindis Orkubús Vestfjarða um breytingu á friðlýsingarskilmálum vatnasvæðis á sunnaverðu Glámuhálendi, vegna virkjunarkosts í Vatnsdal.
  • Nýting jarðhita. Fram kom að rannsóknir (borun) á jarðvarma verða framkvæmdar á þessu ári. Verði niðurstöður jákvæðar verður mögulegt að skipta út rafhitun á fjarvarmaveitum í Skutulsfirði og Patreksfirði og minnka raforkunotkun um 10-12 MW sem nýta má til orkuskipta. Í Steingrímsfirði gæfist aukið færi á uppbygginu nýrra atvinnutækifæra og skoða forsendur fyrir hitaveitu á Hólmavík og nágrenni.
  • Afhendingaröryggi raforku. Hringtengingu flutningskerfis raforku á norðan og sunnaverðum Vestfjörðum er líklega lokið á næstu þrem árum. Afl (10 MW) frá nýrri vatnsaflsvirkjun í Steingrímsfirði sem er í undirbúningi, myndi vera ígildi hringteningar fyrir samfélag og atvinnulíf á Ströndum. Þrífösun dreifkerfis heldur áfram m.a. að Örlygshöfn í Patreksfirði, í Álftafirði, í Gufudalssveit og í Árneshreppi en verkefni eru mjög víða eftir. Ný aðveitustöð verður tekin í notkun á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi og aukin flutningsgeta jarðstrengs um Steingrímsfirði, styrkir það atvinnuuppbyggingu í Ísafjarðardjúpi.
  • Orkuskipti og aukin eftirspurn. Áætlað er að 20 MW þurfi fram til 2030, vegna orkuskipta í höfnum, rafvæðing smábáta, þungaflutninga og einkabíls og hátt í 15 MW til að mæta fyrirséðri eftirspurn nýrra fyrirtækja. Orkuþörf á Vestfjörðum fer því úr um 50 í 85 MW og eykst enn eftir því sem orkuskipti ganga fram. Ljóst er að vanda þarf val á staðsetningum hleðslustöðva vegna þungaflutninga um stofnvegi á Vestfjörðum og í tengslum við Breiðafjarðarferju.

Nauðsyn Orkuþings Vestfjarða.

Sérstaða orkumála á Vestfjörðum í samanburði við aðra landshluta er viðvarandi orkuskortur og takmarkanir í flutningskerfi. Orkuframleiðsla á Vestfjörðum er innan við helmingur af eftirspurn og ef horft er til samhengis við aðra landshluta, þá eru ekki til staðar stórir virkjanakostir í vatnsafli eða jarðhita, en líklega tækifæri í nýtingu lághitavarma og í vindorku. Afhendingargeta flutningskerfis raforku er síðan takmörkuð við eina ótrygga flutningslínu við aðra hluta landsins.

Til að tryggja afhendingaröryggi fyrir það samfélag og atvinnulíf sem er til staðar í dag, þá þarf að reiða sig á varafl sem framleitt er með jarðefnaeldsneyti. Varaafl er hinsvegar takmarkað og skert aðgengi að tryggri orku hefur neikvæð áhrif á framþróun atvinnulífs og samfélaga og leitt til lakari launaþróunar, einhæfara atvinnulífs og minni áhuga fyrir fjárfestingum. Þessi staða er í andstöðu við markmið áætlana stjórnvalda í innviða og byggðamálum um efla samfélög og atvinnulíf um land allt. Staða í loftlagsmálum er síðan nýtt viðfangsefni og viðbrögð stjórnvalda í þeim efnum er að draga verði hratt úr notkun jarðefnaeldsneytis á næstu árum.

Starfshópur umhverfis, orku og loftlagsráðherra sem skipaður var í júní 2021, kynnti í apríl á síðasta ári, metnaðarfulla aðgerðaáætlun í tólf liðum til að mæta áskorunum í flutningsmálum, dreifikerfi og orkuframleiðslu innan Vestfjarða https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Raforkumal_Vestfjarda_skyrsla_2022.pdf Þær aðgerðir voru í sama mánuði kynntar á málþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga á Ísafirði um orkumál á Vestfjörðum.

Nýr starfshópur umhverfis-, orku og loftlagsráðherra frá í desember s.l. var settur á af stað til að móta nýjar tillögur í samhengi tillögur fyrri starfshóps. Vinna starfshópsins er samráði við stofnanir og haghafa, en markmiðið er að nýjar tillögur byggi fyrri tillögum en þær verði nú samþættar við verkefni varðandi jarðhitaleit, aukinnar orkuöflunar, þjóðgarð á Vestfjörðum, eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum.

Fyrir Vestfirði er nauðsyn að halda verkefnum að stjórnvöldum og hagaðilum og því er stefnt að Orkuþing Vestfjarða verði að árlegum viðburði til að ræða framþróun og tækifæri í orkumálum á Vestfjörðum.

Erindi og ávörp sem flutt voru á þinginu eru sem hér segir:

Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga
Upptaka ¦ ávarp
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Norðvesturkjördæmis
Upptaka

Staða verkefna og næstu skref
Gnýr Guðmundsson, forstöðumaður kerfisþróunar, Landsnet
Upptaka ¦ glærur
Elías Jónatansson, orkubússtjóri, Orkubú Vestfjarða
Upptaka ¦ glærur
Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindarsviðs, HS Orka
Upptaka ¦ glærur

Áhrif þróunar orkumála og orkuskipta á framtíðarhorfur fyrir samfélög og atvinnumál á Vestfjörðum
Tinna Rún Snorradóttir, rannsóknar og þróunarstjóri Blámi
Upptaka ¦ glærur
Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar Landsvirkjun
Upptaka ¦ glærur
Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður starfshóps umhverfis- orku og loftlagsráðherra - Efling samfélags á Vestfjörðum
Upptaka ¦ glærur

Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku
Fundarslit - upptaka


Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku var fundarstjóri Orkuþings Vestfjarða 2023