Fara í efni

Nýjasta tækni sýnd á Sjávarútvegur 2025

Fréttir

Sýningin Sjávarútvegur 2025 fór fram dagana 10. til 12. september 2025 í Laugardalshöll. Allir helstu birgjar sjávarútvegsins voru staddir á sýningunni þar sem þeir kynntu vörur sínar fyrir sjávarútvegsfyrirtækjunum og var því nóg af flottu dóti að sjá og fræðast um. Atvinnuráðgjafar Vestfjarðastofu, Magnús Þór Bjarnason og Guðrún Anna Finnbogadóttir sóttu sýninguna til að vera með puttana á púlsinum.

Tvö vestfirsk fyrirtæki, Sjótækni og Ístækni, kynntu starfsemi sína á sýningunni. Sýningarrými þeirra voru vel sótt og margir áhugasamir um þjónustuna sem þau veita. Mjólkurbikar Vestra í knattspyrnu var til sýnis á bás Ístækni og vakti hann verðskuldaða athygli. Hafnir Fjarðarbyggðar voru á sýningunni að kynna þjónustu sína sem var athyglisvert að sjá, einnig að sjá að opinberir eftirlitsaðilar sameinuðust um bás á sýningunni.


Kynningarbás Sjótækni var glæsilegur. Mynd frá Sjótækni

Magnús Þór sagði atvinnuráðgjafana hafa haft gagn og gaman að heimókninni á Sjávarútvegur 2025: „Það hefur stundum verið sagt að verðmætasta útflutningsafurð Vestfjarða hafi verið Vestfirðingar. Á sjávarútvegssýningunni er þetta mjög áberandi hve margir brotfluttir Vestfirðingar starfa í sjávarútvegi út um allt land. Sjávarútvegssýningin bar vott um að sjávarútvegur á Íslandi er orðin vel mótaður iðnaður þar sem áherslan er á hagræðingu og tæknivæðingu. „Betur vinnur vit en strit“ á vel við og það sem sat eftir í huganum að sýningu lokinni."