Fara í efni

Ný skýrsla Vestfjarðastofu: Varnarinnviðir á Vestfjörðum í ljósi borgaralegra þarfa

Fréttir Skýrslur og greiningar

Vestfjarðastofa hefur gefið út skýrslu undir yfirskriftinni „Varnarinnviðir á Vestfjörðum í ljósi borgaralegra þarfa“. Höfundar hennar eru Gylfi Ólafsson, stjórnarformaður Vestfjarðastofu, Brynja Huld Óskarsdóttir, varnarmálasérfræðingur og Aðalsteinn Óskarsson, sviðstjóri byggðamála hjá Vestfjarðastofu.

Í skýrslunni er fjallað um mikilvægi þess að efla innviði á Vestfjörðum með hliðsjón af auknum öryggisógnum og kröfum NATO um samfélagslegt áfallaþol. Lögð er áhersla á að borgaraleg kerfi, svo sem orkuframleiðsla og flutningar, fjarskipti og samgöngur, þjóni tvíþættu hlutverki þar sem þau eru undirstaða bæði daglegs lífs og landvarna á krísutímum. Í skýrslunni er lögð sérstök áhersla á að björgunarsveitir séu hryggjarstykkið í viðbúnaði svæðisins og að fjárfestingar í verkefnum eins og Hvalárvirkjun og úrbótum á farneti og endurnýjun ljósleiðara séu nauðsynlegar til að tryggja áfallaþol og sjálfbærni fjórðungsins.

Höfundar benda á að Ísland þurfi að skilgreina þjóðhagslega mikilvæga innviði betur til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um varnartengdar fjárfestingar. Markmiðið er að lágmarka samfélagslega röskun við áföll með því að styrkja viðnámsþol lykilkerfa gagnvart hvers kyns fjölþáttaógnum eða náttúruhamförum.

Gengið var frá skýrslunni að mestu í desember 2025. Í janúar 2026 hneppti Bandaríkjastjórn Maduro forseta Venesúela í fangelsi og í kjölfarið hefur staða Grænlands verið til umfjöllunar leiðtoga ríkja Atlantshafsbandalagsins. Við teljum rétt að birta skýrsluna með þessum fyrirvara með vísan til þess að landslag í öryggis- og varnamálum er mikilli óvissu háð.

Varnarinnviðir á Vestfjörðum í ljósi borgaralegra þarfa