Fara í efni

Ný samgönguáætlun boðar miklar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga Svæðisskipulag Vestfjarða Innviðir

Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, kynnti samgönguáætlun til ársins 2040 á blaðamannafundi í dag þar sem hann kynnti jafnframt aðgerðaáætlun til fimm ára. Meðal þess sem kom fram var breitt forgangsröðun jarðgangaframkvæmda. Fljótagöng, milli Siglufjarðar og Stafár í Fljótum, eru sett í fyrsta sæti en á hæla þeirra í 2-3 sæti má finna Súðavíkurgöng og Fjarðargöng á Austfjörðum. Fjórðu og síðustu göngin sem rata á lista yfir göng í forgangi eru þau undir Miklidal og Hálfdán sem myndu þá tengja byggðakjarnana þrjá í Vesturbyggð: Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal.

Í samgönguáætlun kemur fram að um leið og framkvæmdum á Dynjandisheiði lýkur árið 2027 verði ráðist í Bíldudalsveg sem liggur af heiðinni og niður í Trostansfjörð, sem gert er ráð fyrir að verði lokið árið 2030. 18 km nýr vegur frá Bíldudal að Trostansfirði er á áætluninni á tímabilinu 2031-2035. Framkvæmdir í Gufudalssveit halda einnig áfram og á þeim að vera lokið árið 2027 með brúargerð í Djúpafirði. Jafnframt verði farið í lagfæringar og lagningu bundins slitlags á kafla Innstrandavegar árið 2030 og framkvæmdir við Veiðileysuháls í Árneshreppi á tímabilinu 2031-2035. Þá eru vegbætur á Flateyrarvegi á áætlun á þessu sama tímabili.

Í hafnarmálum má nefna framkvæmdir við að ljúka við nýjan viðlegukant á Sundabakka á Ísafirði og nýframkvæmdir í Bolungarvíkurhöfn á síðari tímabilum áætlunarinnar og áframhald á endurbyggingu viðlegukants og þekju í Reykhólahöfn. 

Við Vestfirðingar höfum löngum vitað að tryggar samgöngur eru ein helsta undirstaða þess að atvinnu- og mannlífið í landshlutanum fái sem best þrifist og því hlýtur dagurinn í dag að vera mörgum mikill gleðidagur þar sem sannarlega má sjá vilja til góðra verka. Framkvæmdir eru eitt, en í áætluninni eru einnig aðrir þættir sem kætt geta Vestfirðinga, þar er stærsti þátturinn að fjárveiting til vetrarþjónustu á landi fer úr 4,5 ma í um 6,5 ma á ári og jafnframt er boðuð endurskoðun á snjómoksturreglum. Einnig á að fylgja eftir að tryggt farnetssamband verði komið á stofnvegi eigi síðar en 2028 og hefja einnig undirbúning á farnetsuppbyggingu á helstu tengivegum.

Þessi samgönguáætlun sem ber yfirskriftina Ræsum vélarnar hlýtur að teljast mikill sigur í þeirri baráttu sem Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur háð fyrir bættum innviðum. Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála og hefur unnið að verkefnum Fjórðungssambands Vestfirðinga til fjölda ára, hafði þetta að segja: Það er ánægjulegt að sjá þessa áætlun komna fram og að áherslur stjórnvalda falla vel að þeim markmiðum sem sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa sett sér í Svæðisskipulagi Vestfjarða 2025-2050.