Fara í efni

Norsk-íslenskur menningarstyrkur

Fréttir Uppbyggingasjóður Vestfjarða

Þeir sem starfa á sviði lista og menningar í Noregi og á Íslandi geta sótt um styrki til samstarfsverkefna sem stuðla að fjölbreytilegu samstarfi á því sviði og koma á varanlegum tengslum milli listamanna og þeirra sem starfa að menningarmálum og menningarstofnana í báðum löndum. Norska menningarráðið (Norsk kulturråd) og mennta- og menningarmálaráðuneyti taka umsóknir til umfjöllunar.
Árið 1994 ákváðu norsk stjórnvöld að leggja til árlegt framlag til norsks-íslensks menningarsamstarfs sem Haraldur V Noregskonungur kynnti í heimsókn sinni til Íslands vegna 50 ára afmælis íslenska lýðveldisins. Framlaginu skyldi ráðstafað í samráði Norska menningarráðsins (Norsk kulturråd) og íslenska mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hið árlega framlag er nú um 1.635.000 norskar krónur.
Markmið framlagsins er að stuðla að fjölbreyttu menningarsamstarfi Noregs og Íslands. Bæði norskir og íslenskir listamenn, þeir sem starfa að menningarmálum, menningarstofnanir og samtök geta sótt um styrk. Verkefni sem fá styrk verða að teljast mikilvæg í báðum löndum, þurfa að vera skipulögð sem samstarfsverkefni þar sem aðilar í báðum löndum leggja til menningarlegt innihald og/eða úrvinnslu og framkvæmd. Verkefni þar sem lögð er áhersla að leiða til varanlegra tengsla milli einstaklinga, samtaka og stofnana, einnig eftir að verkefni lýkur, hafa forgang.Verkefnin skulu endurspegla fjölbreytt listræn form og hafa í senn skírskotun til sögunnar og samtímans.
Ekki eru veittir styrkir til verkefna sem eru hluti af kjarnastarfsemi menningarstofnana. Að öllu jöfnu eru ekki veittir ferðastyrkir til þátttöku í tónleikaferðum, þátttöku i hátíðum, tónleikum eða öðrum fyrirfram skipulögðum viðburðum nema þegar slík þátttaka er hluti af samstarfsverkefni.
Ekki er unnt að fullfjármagna verkefni.

Hægt er að sækja um hér.