Fara í efni

Mannamót markaðsstofanna haldin á morgun

Fréttir Markaðsstofa Vestfjarða

Mannamót Markaðsstofa landshlutanna verða haldin á morgun í Kórnum í Kópavogi á milli klukkan 12 og 17. Mannamót eru árlegur viðburður sem hefur lengi verið einn mikilvægasti kynningar- og tengslamyndunarvettvangur ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Mannamót er fjölmennasti viðburðurinn í íslenskri ferðaþjónustu þar sem rúmlega þúsund gestir hafa mætt og sýnendur verið um 250 talsins.

Eitt helsta markmiðið Mannamóta er að skapa tækifæri fyrir ferðaþjónana að kynna þjónustu sína og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem starfa á höfuðborgarsvæðinu, en jafnframt er lögð áhersla á að efla tengsl innan greinarinnar, styrkja samstarf og auka sýnileika þeirra fjölbreyttu tækifæra sem ólíkir landshlutar Íslands hafa upp á að bjóða. Fyrirtæki sem skráð eru í markaðsstofur sinna landshluta geta tekið þátt sem sýnendur, en öllum er frjálst að mæta á viðburðinn og enginn aðgangseyrir er fyrir gesti.

Mannamót eru hluti af Ferðaþjónustuvikunni, sem fer fram dagana 13.–15. janúar 2026. Þar er áhersla lögð á að efla fagmennsku og samstarf innan greinarinnar með fjölbreyttri fræðsludagskrá.

Starfsfólk Markaðsstofu Vestfjarða verður á staðnum og taka Sölvi og Vilborg vel á móti gestum ásamt vestfirskum ferðaþjónum.