Lokaviðburður Startup Landið, sem er sameiginlegur hraðall landshlutasamtakanna, verður haldinn á Akureyri fimmtudaginn 30. október kl. 13–15. Tólf teymi voru valin til þátttöku í hraðlinum og hafa þau unnið ötullega að nýsköpunarverkefnum sínum undanfarnar vikur. Í gegnum hraðalinn hafa þau fengið allra handa fræðslu sem nýtist frumkvöðlum við að hleypa vöru sinni af stokkunum, auk þess sem þau hafa notið handleiðslu sérfróðra mentora. Á lokaviðburðinum stíga teymin á svið og kynna fyrirtækin sín með stuttri og hnitmiðaðri kynningu.
Þátttakendur í Startup Landinu 2025
Mundialis – Malað frostþurrkað grænmeti, beint í hollustudrykkinn. (Vesturland)
Festivus – Hornfirskt gæðasúkkulaði og ævintýralegur áfangastaður. (Suðurland)
Snældur – Íslensk hönnunar- og gjafavara fyrir börn á aldrinum 0–4 ára úr íslenskum við. (Norðurland eystra)
Ahsig ehf. – Dagsferðir fyrir ferðaþjónustu í Skagafirði. (Norðurland vestra)
Fast and Affordable – Ný byggingartækni til að lækka byggingarkostnað og stytta byggingartíma á steinsteyptum húsum. (Suðurnes)
Cannarctica – Orkusparandi heildarlausn fyrir gróðurhús í köldu loftslagi. (Vestfirðir)
Lífrænt vottaðar íslenskar lækningajurtir – Framleiðsla og sala lífrænna lækningajurta. (Vesturland)
Hunda Veisla – Lífrænt heilfóður fyrir hraustari hunda, unnið úr úrgangi sláturhúsa. (Suðurland)
Böggvisbrauð – Lífrænt súrdeigsbrauð – næringarríkt og umhverfisvænt. (Norðurland eystra)
Brekka Ferðaþjónusta – Ómönnuð verslun á Þingeyri ásamt veitingasölu. (Vestfirðir)
Sólbrekka Mjóafirði – Ævintýraleg vetrarferð með áherslu á friðsæld og náttúrufegurð. (Austurland)
Litli Gúri ehf. – Upplifðu náttúruna og undur hafsins – RIB Safari á Skagaströnd. (Norðurland vestra)
Viðburðurinn fer fram í Hofi á Akureyri og boðið verður upp á léttar veitingar. Öll eru velkomin að taka þátt í gleðinni en skráninga er óskað hér: https://luma.com/od32ee6r