Fara í efni

Litli Púkinn lukkaðist vel

Fréttir Verkefni Sóknaráætlun Vestfjarða

Barnamenningarhátíðin Púkinn steig aftur fram á vordögum og fór fram dagana 15. -26. apríl. Eftir fyrsta Púkann, sem var haldinn í september 2023, kom fram að betur færi á halda hátíðina að vori. Því var ákveðið að halda aðra hátíð strax vorið 2024, en hún yrði smærri í sniðum. Fyrsta hátíðin var styrkt af Barnamenningarsjóði en þessi sem nú fór fram af Sóknaráætlun Vestfjarða. Hátíðin var því haldin tvisvar á þessu skólaári, en hefur nú vonandi fundið sinn stað á dagatalinu og verður haldin aftur vorið 2025.

Hátíðin fór fram víðsvegar um Vestfjarðakjálkann og dagskráin var fjölbreytt með 25 skemmtilega menningarviðburði fyrir vestfirsk börn. Þema hátíðarinnar í ár var: Hvers vegna búum við hér? og var það valið af vestfirskum ungmennum. Þemað var meðal annars innblástur fyrir nemendur í Grunnskóla Önundarfjarðar sem tóku viðtöl við nokkra íbúa á Flateyri og spurðu einmitt þessarar spurningar. Hér má sjá afraksturinn í skemmtilegu myndbandi:

Litli leikklúbburinn á Ísafirði bauð upp á námskeið í sketsagerð og spuna og Leikfélag Hólmavíkur bauð upp á leiklistarnámskeið. Það var vel sótt og ljóst að miklir leikhæfileikar leynast í þessu unga fólki. 

Miðaldahljómsveitin Krauka kom á Strandir og hélt tónleika fyrir nemendur á Hólmavík og Drangsnesi, auk þess sem þeir áttu skemmtilega stund með nemendum Ásgarðsskóla í skýjunum. Börnin kunnu vel að meta þessa gömlu tónlist og félagarnir í Krauku sögðu skemmtilegar sögur og sýndu nemendum hljóðfærin sín sem eru nokkuð frábrugðin þeim sem helst eru notuð í dag. 

Á Reykhólum var rappsmiðja undir styrkri leiðsögn Reykjavíkurdætranna Röggu og Steinunnar. Stelpurnar sem tóku þátt kalla sig að sjálfsögðu Reykhóladætur og sömdu þær frábært lag í smiðjunni sem þær ætla einnig að gera myndband við.

Púkarnir á Patró settu upp ljósmyndasýninguna Í vestfirskum fjallasal. Þar sýndu þau hvernig þau leika sér á skemmtilegum svæðum í bænum. Í Bolungarvík voru börn einning með ljósmynda- og ljóðasýningu undir þema hátíðarinnar Af hverju búum við hér? 

Skólar á svæðinu nýttu tækifærið og efndu til listsköpunar úti í náttúrunni. Krakkarnir á Bíldudal fóru í fjöruferð og gerðu listaverk úr efnivið sem þau fundu þar. Á Tálknafirði var fjaran einnig innblástur til listsköpunar og fóru krakkarnir í fjöruna á fallegum vordegi þar sem þau sköpuðu úr þeim ríkulega efnivið sem náttúran leggur til. Hér má sjá myndasýningu frá því:

 

Tónlistarskóli Ísafjarðar og Byggðasafn Vestfjarða buðu upp á skemmtilega tónleika í Turnhúsinu í Neðstakaupstað. Þar voru flutt frumsamin lög eftir nemendur Tónlistarskólans af skólakórnum undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Nemendur í T.Í. voru einnig með tónleika að loknu námskeiði með Svövu Rún Steingrímsdóttur þar sem þau léku eigið tónverk. Tónlistarskóli Vesturbyggðar var með spunasmiðju. Börnin spunnu upp sögur og skreyttu með hljóðfæraleik. Smiðjustjóri var einn af kennurum skólans, Alejandra Pineda De Avila. 

Eitt stærsta verkefnið á hátíðinni fór fram í Grunnskólanum á Ísafirði. Það bar yfirskriftina „Heill heimur af börnum“ og var stýrt af Kristínu Vilhjálmsdóttur. Lokahluti verkefnisins var kallað menningarmót og var foreldrum og gestum boðið að skoða þá fallegu vinnu sem börnin höfðu framkvæmt. Verkefnið var unnið í samstarfi við Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og verður væntanlega meira um það á hátíðahöldum á Hrafnseyri í kringum 80 ára afmæli lýðveldisins 17. júní næstkomandi. Hér má sjá myndband sem Soffía Rún Pálsdóttir, nemandi í 10. bekk G.Í. gerði eftir að við heimsóttum krakkana í undirbúningum:

Það verður gaman að fylgjast með Púkanum vaxa og þróast enn frekar. Send hefur verið út könnun varðandi tímasetningar á Púkanum næsta vor, svo við getum öll byrjað að láta okkur hlakka til.