Fara í efni

Leiðir til byggðafestu í dreifbýli skoðaðar á málþingi

Fréttir

Málþing um leiðir til byggðafestu á sauðfjárræktarsvæðum Dalabyggðar, Reykhólasveitar, Stranda og Húnaþings vestra fór fram á Laugum í Sælingsdal þriðjudaginn 18. nóvember. Málþingið markaði lok verkefnisins Leiðir til byggðafestu, sem hófst árið 2023.

Málþingsstjóri var Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, og flutti Hjörleifur Finnsson þar erindi. Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, sótti málþingið en FV er meðal samstarfsaðila verkefnisins. Þá sótti það einnig nýr starfsmaður okkar á Ströndum, Valgeir Jens Guðmundsson, sem er verkefnisstjóri Jú víst! Kraftur í Kaldrana, verkefnis á sviði Brothættra byggða.

Páll S. Brynjarsson, framkvæmdastjóri SSV, setti málþingið og tóku fyrst til máls verkefnastjórar Leiða til byggðafestu, þau Björn Bjarnason og Hlédís Sveinsdóttir. Þau fjölluðu um verkefnið í heild sinni sem og skýrslu sem þau unnu á verkefnistímanum. Meðal niðurstaðna var að mikil verðmætasköpun gæti átt sér stað í landbúnaðarhéruðum með lítilli yfirbyggingu. Helstu stólparnir gætu leynst í fjórum leiðum: kræklingi, sem rækta má í litlu rými en markaður er stór; þörungum, sem einnig krefjast lítils vinnslusvæðis og hafa mikla eftirspurn; grasapróteini, þar sem stuðst er við innlenda orku og hráefni; og kolefnisbindingu, sem gæti skilað verulegum ávinningi fyrir bændur. Enn sem komið er kann þetta þó að vera sýnd veiði en ekki gefin, þar sem regluverk er annað hvort mikið eða óljóst og skortur er á rannsóknum. Byggðafesta krefst nefnilega þekkingaröflunar og stundum kerfisbreytinga, að sögn Björns og Hlédísar.

Dr. Torfi Jóhannesson, framkvæmdastjóri Nordic Insights, flutti kraftmikið erindi um byggðaþróun út frá norrænu sjónarhorni. Hann er búsettur í Kaupmannahöfn og starfaði lengi sem aðalráðgjafi á sviði landbúnaðar og skógræktar hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Nýsköpun – vonarneistar til framtíðar

Þorgrímur Einar Guðbjartsson á Erpsstöðum var með erindið Virðisauki heima á hlaði. Rjómabúið Erpsstaðir er vinsæll viðkomustaður ferðafólks við þjóðveginn í Dölunum, en þar er rekið kúabú með framleiðslu á ís, ostum og öðru góðgæti. Þau taka á móti hópum, sýna og segja frá, og reka einnig verslun með eigin afurðir og vörur úr héraði.

Berglind Viktorsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda, fjallaði um Hey Iceland, vörumerkið sem Ferðaþjónusta bænda hefur starfað undir frá 2016. Hún fór yfir sögu fyrirtækisins og hvernig þjónustan virkar bæði inn á við til bændanna og út á við til kaupenda. Þá horfði hún til framtíðar og ræddi þau tækifæri sem til vaxtar eru.

Hjörleifur Finnsson, verkefnisstjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu, fjallaði um kolefniseiningar. Endurheimt votlendis virðist vera hagkvæmasta leiðin til framleiðslu þeirra. Kolefniseiningar eru framseljanlegar og verða til þegar binding eða samdráttur í losun er sannprófaður af faggildum vottunaraðila. Eitt tonn af koldíoxíði er ígildi einnar kolefniseiningar.

Guðfinna Lára Ásgeirsdóttir, bóndi og frumkvöðull á Stóra-Fjarðarhorni á Ströndum, gaf innsýn í eigin reynslu af nýsköpun í landbúnaði. Hún fjallaði meðal annars um sauðfjárrækt, holdanautgriparækt og uppsetningu matvælavinnslu; verkefni sem reyndist krefjandi en opnaði ýmsa möguleika. Hún fjallaði einnig um BENIGN verkefni Nordic Energy Research sem hún hefur tekið þátt í ásamt Vestfjarðastofu undanfarna mánuði.

Ingibjörg Þóranna Steinudóttir hjá Urði Ullarvinnslu flutti erindi um þetta nýsköpunarverkefni í Dölunum. Urður Ullarvinnsla framleiðir ullarband úr lambsull, verðmætustu og mýkstu ullinni sem völ er á. Þau vinna eingöngu með íslenska sauðaliti, marga hverja sem lítið hafa verið nýttir til þessa. Þróun verkefnisins hófst 2023 þegar vélarnar voru pantaðar og stóð þá fyrir dyrum að standsetja gömlu fjárhúsin undir vinnsluna, sem opnaði síðastliðið sumar.

Sigurður Líndal, verkefnisstjóri hjá Eimi, fjallaði um sniglarækt á Norðurlandi þar sem vannýtt jarðhitavatn er nýtt til ræktunar. Sniglar eru hentugt og sjálfbært prótein sem stækkar í myrkri og er því vel fallið til ræktunar á norðlægum slóðum. Ræktunin er umhverfisvæn, lyfjalaus og framleiðir fitulítið prótein með ómega-3. Sniglar eru um margt spennandi ræktunarmöguleiki og þeir eru ólíklegir til að valda usla í náttúrunni þar sem þeir myndu einfaldlega drepast ef þeir yfirgæfu ræktunarsvæðið.

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, formaður VOR – félags um lífræna ræktun og framleiðslu og fagráðs um lífræna ræktun – fjallaði um lífræna grænmetisrækt sem hún segir raunhæfan valkost fyrir bændur og leið til að auka verðmæti afurða og staðfesta gæði.

Steinþór Logi Arnarsson, formaður Samtaka ungra bænda, hélt erindi undir heitinu Hvað dregur ungt fólk í dreifbýli? Þar fjallaði hann um starfsskilyrði innan landbúnaðarins og rannsókn sem framkvæmd var meðal félagsmanna. Eins og kunnugt er er nýliðun lítil í landbúnaði og benda niðurstöður til að helstu hindranir tengist framboði á bújörðum og veikleikum í fjárhagsumhverfi greinarinnar, bæði hvað varðar lánakjör og arðsemi.

Að erindum loknum var boðið upp á pallborðsumræður. Unnið er að því að koma erindunum sem flutt voru á netið og setjum við inn tilkynningu hér á síðuna þegar þau koma inn.