Fara í efni

Heimsóknir fjölmiðla sumarið 2022

Fréttir Markaðsstofa Vestfjarða

Nú er farið að síga á seinnihluta ferðasumarsins. Í fljótu bragði litið var þetta fyrsta sumar eftir afléttingu ferðatakmarkana gott hjá ferðaþjónustunni. Metfjöldi skemmtiferðaskipa lögðu leið sína til Vestfjarða, vel var bókað á hótelum og tjaldsvæði voru yfirfull af innlendum og erlendum gestum í júlí.

Skjáskot úr Instagram sögu (e. story) Travel+Leisure, ferðamiðill með 6,1 milljón fylgjenda.
Höfundur: Lauren Breedlove

 Markaðsstofa Vestfjarða hefur staðið í ströngu þetta sumarið við að vinna með fjölmiðlum til að kynna Vestfirði sem áfangastað. Frá því í vor hefur Markaðsstofan komið beint að skipulagi umfjallana hjá 25 miðlum. Helstu áherslur þeirra verkefna er að kynna Vestfirði í tengslum við Lonely planet viðurkenninguna og Vestfjarðaleiðina. Þó eru nokkur sem snúa að sérverkefnum eins og viðburðum, sjónvarpsþáttum og auglýsingaherferðum. Hér má sjá umfjöllun Conde Nast Traveller um viðburðinn Detour discotheque, sem haldinn var á ÞIngeyri í apríl síðast liðnum.

Miðlarnir sem koma meðal annars frá Þýskalandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Frakklandi eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir, þ.e. sjónvarp, samfélagsmiðlar, tímarit, blöð í prenti og á netinu.

Tveir sjónvarpsþættir voru teknir upp á Vestfjörðum þetta sumarið. Eschappelle Belles, frá frönsku sjónvarpsstöðinni TV5Monde, kom víða við á Vestfjörðum í maí, en þátturinn er ferðaþáttur sem kafar djúpt ofan í samfélag áfangastaða. Hins vegar var sjónvarpsþátturinn Abenteuer Leben á sjónvarpsstöðinni Kabel Eins sem lauk tökum núna í byrjun ágúst, en þátturinn leggur áherslu á ævintýraferðamennsku og matarupplifun.

Selir á Rauðasandi skjáskot úr efni Kabel Eins, Abenteuer Leben

Þó liðið sé á sumarið er von á heimsóknum frá fleiri miðlum sem munu ferðast um Vestfjarðaleiðina. Þar má nefna Irish Mail, Metro.co.uk og Brigitte.de.

Fyrir utan allar jákvæðu fréttir sumarsins af Vestfjörðum frá Magnúsi Hlyni er afrakstur erfiðisins nú ekki allur búinn að líta dagsins ljós, en mikið af efninu er ennþá í vinnslu og ekki kominn í birtingu.