Fara í efni

Heill heimur af börnum á Púkanum

Fréttir Sóknaráætlun Vestfjarða

Nú fer fram barnamenningarhátíðin Púkinn. Krakkar um víða Vestfirði taka þátt í ýmsum viðburðum og á Ísafirði eru krakkarnir á miðstigi í G.Í. að taka þátt í verkefni sem heitir Heill heimur af börnum – Börn setja mark sitt á Íslandskortið. Þau hafa unnið saman í smiðjum þar sem þau velta fyrir sér hvernig hver og einn, og rödd hvers og eins, skiptir máli í lýðræðislegu samfélagi. Þau hafa litið til fortíðar og framtíðar og staldrað við í nútímanum.

Í gegnum verkefnið hlúa þau að virðingu hvert fyrir öðru þvert á fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Þau efla forvitni sína og áhuga um sjálf sig og samferðafólk sitt og líta til þess hvert ríkidæmið er á hverjum stað. Það fellur afskaplega vel að þema Púkans í ár, sem valið var af vestfirskum ungmennum og verpist í kringum spurninguna af hverju búum við hér?

     

Við kíktum í heimsókn í Grunnskólann á Ísafirði og fræddumst um verkefnið. Þá voru krakkarnir að setja upp á miða á fjölmörgum tungumálum þau gildi sem þau höfðu komið sér saman um. Þegar þau voru spurð út í hverjir kostir þess að búa á Ísafirði væru stóð ekki á svörum. Yfirgnæfandi meirihluti sagði að það fælist mikið frelsi í því að vera barn á Ísafirði. Þau hefðu frelsi yfir tíma sínum og þyrftu ekki að hafa áhyggjur af hættulegri umferð eða að vera háð bílum. Friður var einnig nefndur sem ótvíræður kostur og að það væri lítil mengun. Stuttar vegalengdir, snjór, skíði og bláber var einnig nefnt.

Á morgun, fimmudag kl. 11, verður boðið til Menningarmóts í Grunnskólanum á Ísafirði þar sem krakkarnir kynna niðurstöður vinnu sinnar hvert fyrir öðru og bjóða einnig fjölskyldum sínum að koma og sjá. Verkefnið er leitt af Kristínu R. Vilhjálmsdóttur sem hefur um árabil leitt vinnu sem þessa og haldið mörg Menningarmót barna á Íslandi og í Danmörku. Verkefnið er einnig liður í 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands sem fagnað er í ár og eru það Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum sem fara fyrir því.

Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða stendur fram til 26. apríl. Vestfirsk börn hafa ekki bara fengið einn Púka heldur tvo þetta skólaárið. Helgast það af endurmati sem fór fram eftir síðustu hátíð þar sem kom fram að betur færi á að halda hátíðina að vori. Því var ákveðið að blása til Púka í smækkaðri mynd núna en halda aftur stóra hátíð að ári. Hægt er að fylgjast með Púkanum á heimasíðu hans Facebook og Instagram.