Dagana 12. og 13. nóvember komu fulltrúar allra markaðsstofa landshlutanna saman á árvissum fundi sem fór að þessu sinni fram í Bjarnarfirði á Ströndum. Markmið haustfundanna er að efla samstarf og horfa sameiginlega til þróunar ferðamála á landsvísu, en í hvert sinn eru síðan sértæk viðfangsefni út frá þeim áskorunum sem tíðarandinn býður upp á. Jafnframt er tækifærið nýtt til vettvangsheimsókna.
Vel var mætt á fundinn en í honum tóku þátt 19 gestir frá markaðsstofunum allsstaðar af landinu, auk fulltrúa frá Ferðamálastofu.
Heimsóknir og tengslamyndun
Fyrri daginn var farið í heimsóknir til fyrirtækja og þjónustuaðila á Ströndum. Þar fengu gestirnir kynningu á Galdrasýningunni, heimsóttu Galdur Brugghús, Hótel Laugarhól og kynningu á væntanlegu hóteli í Hólmavík. Heimsóknir sem þessar eru mikilvægur liður í haustfundunum, því þær veita innsýn í það fjölbreytta starf sem fer fram á hverju svæði og undirstrika sérstöðu svæðanna. Jafnframt skapa þær tækifæri fyrir gagnkvæman lærdóm og innblástur fyrir frekari verkefni.
Eftir að formlegri dagskrá lauk var lögð áhersla á að skapa rými fyrir óformlegt spjall og tengslamyndun. Það er snar þáttur í því að efla samstarf markaðsstofanna, sem byggir á traustum samskiptum og að nema sameiginlegar áskoranir.
Á öðrum degi hélt fundurinn áfram með umræðum um sameiginlegan gagnagrunn markaðsstofanna og Ferðamálastofu. Gagnagrunnurinn er mikilvægt verkfæri í upplýsingamiðlun sem byggir á samræmdri vinnu og markvissri framsetningu ferðamálaefnis á landsvísu.

Nýjar áskoranir með nýrri tækni
Í framhaldinu var haldið fræðsluerindi um gervigreind í umsjón Datera. Þar var farið yfir helstu tækifæri og áskoranir sem fylgja hraðri þróun gervigreindartækni og hvernig markaðsstofur þurfa bregðast við þessum breyttu aðstæðum. Neytendur eru í auknum mæli að nota nýjar leiðir til að leita upplýsinga og því þurfa áfangastaðir og upplýsingavefir að laga sig að breyttum hegðunarmynstrum. Fjallað var um hvernig markaðsstofur geta tryggt aðgengi, sýnileika og gæði upplýsinga í breyttu umhverfi.
Öflugt samstarf markaðsstofa landsins er lykilatriði í því að byggja upp sterka heildarmynd af Íslandi sem áfangastað og tryggja að ferðamenn fái góða upplifun óháð landshluta. Heimsóknin á Strandir var virkilega gagnleg og auk þess sem gestir fóru þaðan með allra handa nýjar upplýsingar og innblástur má ekki gleyma áhrifunum sem þetta fallega svæði kann að hafa á hvern þann sem það heimsækir.
