Fara í efni

Framtíðarmöguleikar Breiðafjarðar

Fréttir

„Leit að jafnvægi milli verndar og nýtingar“ var yfirskrift þriggja upplýsinga- og umræðufunda sem haldnir voru vegna verkefnis um framtíð Breiðafjarðar. Þriðji og síðasti fundurinn var haldinn á Birkimel á Barðaströnd, þriðjudaginn 26. mars, en áður voru sambærilegir fundir haldnir að Laugum í Sælingsdal og í Stykkishólmi.

Að verkefninu stóðu Fjórðungssamband Vestfirðinga og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, fyrir hönd stýrihóps sem fékk það verkefni að gera svokallaða forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar með tilliti til byggðaþróunar og sjálfbærrar nýtingar.

Á fundunum var sagt frá stöðugreiningu sem sýnir hvað Breiðafjörðurinn er einstakur, sama hvert litið er, greiningu um hagrænt virði Breiðafjarðar og sviðsmyndgreiningu, þar sem horft var til ársins 2040. Ein sviðsmyndanna fékk heitið „Breiðfirskir straumar“. Hún vísar til þess að með áherslu á verndun og fjölbreytt atvinnulíf, verði staða Breiðarfjarðar sterk, með öflugu rannsóknarstarfi, sem styrkt er af yfirvöldum, langtímahugsun í allri uppbyggingu, þar sem sjálfbærniáherslur blómstra.

Markmið fundanna var að kynna íbúum og hagaðilum þessar greiningar og fá viðbrögð á drög að tillögum sem stýrihópurinn mun síðan afhenda umhverfis-, orku og loftslagsráðherra.

Samtals mættu um 90 manns á fundina þrjá og greinilegt að fólk kunni að meta það að vera boðið til umræðu um sitt heimasvæði og framtíðina. Þátttakendur rýndu tillögurnar í litlum hópum og höfðu líka frelsi til að ræða annað sem þeir telja mikilvægt til að ná jafnvægi milli verndar og nýtingar á Breiðafjarðarsvæðinu.

Sagt verður nánar frá skilaboðum íbúa í apríl, þegar búið verður að vinna úr afrakstri fundanna.

Yngsti þátttakandinn á fundinum í Birkimel kom vegna mikils áhuga á málefninu og hafði kynnt sér tillögurnar á netinu fyrir fundinn. Sá er á sextánda ári og má því segja að þar hafi rödd framtíðar ratað inn í umræðuna.