Fara í efni

Fiðlarinn á þakinu valin áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins

Fréttir
Bergþór Pálsson í hlutverki Tevje mjólkurpósts.
Bergþór Pálsson í hlutverki Tevje mjólkurpósts.

Uppsetning Litla leikklúbbsins á Ísafirði á Fiðlaranum á þakinu hefur verið valin áhugaleiksýning leikársins 2023-24. Sýningin, sem var unnin í samstarfi við Tónlistarskólann á Ísafirði, var frumsýnd í Edinborgarhúsinu 1. febrúar með Bergþór Pálsson í hlutverki mjólkurpóstsins Tevje, sem reynir af öllum mætti að halda í gamlar hefðir en reynist það erfitt. 

Í umsögn dómnefndar segir:  „Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Litla leikklúbbsins á Fiðlaranum á þakinu í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2023-2024. Sýningin er unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna. Frábært samstarf Litla leikklúbbsins og Tónlistarskólans á Ísafirði skilar ljómandi góðri útkomu.
Umgjörð sýningarinnar er einföld en vönduð og áhrifarík og vel tekst að fanga tíðaranda og kjarna verksins. Myndir sem varpað er upp gefa annars einfaldri leikmynd sterkan svip. Hljóð er vel unnið, sem og leikgervi og búningar. Hópsenurnar einstaklega vel útfærðar þrátt fyrir mikinn fjölda á sviðinu og sviðshreyfingar skemmtilegar.
Tónlistarflutningur í sýningunni er til fyrirmyndar og söngur til mikillar prýði. Leikhópurinn er samheldinn og sterkur. Hver og ein persóna fær sitt pláss. Leikararnir skila persónum sínum ljóslifandi og tvinna saman þessa átakanlegu og fallegu sögu og skila henni til áhorfenda af öryggi. Það má sjá sköpunargleði hvers og eins sem að sýningunni kemur skína í gegn og úr verður heildstæð og kraftmikil sýning.“

Litla leikhópnum hefur verið boðið að koma og setja sýninguna upp á stóra sviði Þjóðleikhússins í júní.