Byggðaráðstefnan 2025 var haldin 4. nóvember í Skjólbrekku í Mývatnssveit undir yfirskriftinni „Félagslegur fjölbreytileiki samfélaga – jafnvægi, áskoranir eða vannýtt sóknarfæri?“ og var hún vettvangur fjölbreyttrar umræðu um samfélagsþróun, inngildingu og jafnrétti í íslenskum byggðum.
Á ráðstefnunni, sem Catherine Chambers við Háskólasetur Vestfjarða stýrði af röggsemi, komu saman fræðafólk, starfsfólk landshlutasamtaka og Byggðastofnunar, ásamt hagaðilum úr ólíkum geirum, til að varpa ljósi á hvernig íslensk byggðarlög geta nýtt fjölbreytileika íbúa sem afl til uppbyggingar og nýsköpunar. Fjallað var um lýðfræðilega þróun og breytingar á samfélagsgerð, og hvernig fjölmenningarleg samsetning íbúa hefur áhrif á daglegt líf og samfélagsþróun víða um land.

Erindi sneru meðal annars að upplifun innflytjenda í dreifbýli, móttöku og stuðningi í nýjum samfélögum og mikilvægi þess að menningarstofnanir taki virkan þátt í inngildingu og samræðu milli ólíkra hópa. Rætt var um líðan og búsetuánægju innflytjenda, tengsl við atvinnulíf og samfélag, auk fjölbreytni í ferðaþjónustu og áhrif hennar á byggðaþróun.
Sérstök umfjöllun var um jafnrétti og kynjað sjónarhorn í byggðamálum, þar sem spurt var hvernig tryggja megi að sjónarmið og reynsla ólíkra hópa fái vægi í stefnumótun og ákvörðunum. Einnig var fjallað um ungt fólk og framtíð byggðanna, þar sem verkefni á borð við HeimaHöfn voru kynnt sem dæmi um leiðir til að efla tengsl ungs fólks við heimabyggð.
Menntakerfið var einnig til umfjöllunar, bæði í samhengi við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og í víðara samhengi háskóla og rannsóknastofnana sem drifkrafta félagslegs fjölbreytileika og þróunar í byggðum. Að lokum var rætt hvernig fjölbreyttari hópur fulltrúa í sveitarstjórnum gæti styrkt lýðræði og dýpkað skilning á samfélagslegum áskorunum.
Þátttakendur fóru frá ráðstefnunni með ríkari sýn á mikilvægi þess að horfa á byggðaþróun út frá mannlegum þáttum – þar sem félagslegur fjölbreytileiki, jafnrétti og inngilding eru ekki aðeins siðferðileg gildi, heldur lykilforsendur sjálfbærrar þróunar og lífsgæða í öllum byggðum landsins.
Byggðaráðstefnur Byggðastofnunar eru haldnar annað hvert ár. Tilgangur þeirra er að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu á byggðaþróun með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar um allt land.
