Erna Lea Bergsteinsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs Vestfjarða, vinnur nú hörðum höndum að því að skipuleggja farsældarþing sem fram fer á Ísafirði 7. nóvember. Í dag birtist á vef Bæjarins besta eftirfarandi grein eftir hana þar sem hún gefur innsýn í verkefni sín og stöðu barna á Vestfjörðum:
Vestfirðir eru á tímamótum, samfélagið vex og ný tækifæri blasa við. Á sama tíma og við fögnum þessari sókn verðum við að spyrja okkur: Hvernig tryggjum við að börnin sem vaxa hér upp njóti raunverulegrar farsældar? Farsæld er ekki bara fallegt orð, hún er mælikvarði á það hversu vel samfélaginu okkar tekst að styðja hvert barn til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðislegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.
Árið 2022 tóku í gildi lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Frá því að lögin tóku í gildi má segja að orðið farsæld hafi verið í tísku síðan. Þegar við heyrum orðið hugsum við kannski um vellíðan, hamingju eða góð lífsskilyrði, sem á allt mjög vel við, en farsældin er í raun miklu meira en það. Hún er sameiginleg sýn okkar á samfélag þar sem fólk upplifir öryggi, traust og tilfinningu fyrir því að tilheyra. Samfélag þar sem við hlustum hvert á annað, stöndum saman og styðjum hvert barn og hvern einstakling að vaxa og dafna á sínum forsendum.
Það sem mér þykir einna fallegast við farsældina er að hún á engan einn eiganda. Farsæld barns er ekki einungis á ábyrgð foreldra eða einnar stofnunnar. Hún er sameiginlegt verkefni okkar allra og verður til í samtalinu, samvinnunni, í því hvernig við mætum fólki, hlustum og stöndum saman í verki.
Föstudaginn 7. nóvember verður fyrsta Farsældarþing Vestfjarða haldið á Edinborgarhúsinu á Ísafirði, það er vettvangur fyrir Vestfirðinga að sameinast um farsæld og framtíð barna á svæðinu. Á þinginu verður Farsældarráð Vestfjarða stofnað en ráðið á að tryggja samráð á svæðinu um farsæld barna. Ráðið verður skipað fólki í fjölbreyttum stöðum hjá sveitarfélögum, ríki, félagasamtökum og stofnunum auk ungmenna og foreldra. Fulltrúar ráðsins fá það mikilvæga hlutverk að útbúa stefnu og aðgerðaráætlun í málefnum barna og fjölskyldna á Vestfjörðum.
Eins og okkur hjá Vestfjarðastofu er tíðrætt um eru Vestfirðir í sókn og nú sér fyrir endann á löngu tímabili fólksfækkunar. Það er ánægjulegt en við þurfum að hlúa að þessu stækkandi samfélagi, sérstaklega börnum og ungmennum. Í nýútgefnum lýðheilsuvísum á vegum Embættis landlæknis fyrir heilbrigðisumdæmi Vestfjarða kemur í ljós að 94% barna í 8.-10. bekk upplifa sig mjög örugg í nærumhverfi sínu miðað við 91,2% barna á landinu. Það er virkilega jákvætt, þó svo að áhyggjur komi upp að um litla hlutfallið sem upplifir ekki öryggi.
Ég tel öryggistilfinninguna eina af mörgum kostum þess að slíta barnsskónum hér og ala upp börn á Vestfjörðum. Í lýðheilsuvísunum má þó einnig sjá tölfræði sem gefur til kynna að betur má ef duga skal. Á Vestfjörðum verða 19% barna í 6. og 7. bekk fyrir einelti. Það er marktækur munur við restina af landinu þar sem 11% barna verða fyrir einelti. Það kemur margt upp í hugann við slíka tölfræði en meðal þess sem ég velti fyrir mér er hvort börn með slíka upplifun og reynslu velji að búa á Vestfjörðum til framtíðar?

Vestfirðingar þurfa að taka höndum saman og tryggja farsæld barna, meðal annars fyrir framtíð Vestfjarða. Á farsældarþingi þann 7. nóvember verður tækifæri til þess. Þingið er öllum opið og nú þegar hefur fjölbreyttur hópur Vestfirðinga og annarra boðað komu sína. Þingið hefst kl. 9:30 með móttöku og heldur áfram með spennandi erindum, umræðum og skapandi innblæstri frá leiðandi röddum svæðisins – frá skólastarfi, félagsmiðstöðvum og íþróttastarfi til menntunar, menningar og framtíðar ungs fólks. Dagskráin er full af áhugaverðum gestaerindum, þar á meðal frá ÍSÍ og UMFÍ, Barna- og fjölskyldustofu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Háskóla Íslands. Þinginu lýkur með stofnun Farsældarráðs Vestfjarða og lifandi tónlist frá nemendum Tónlistarskólans á Ísafirði.
Eins og segir í gildandi Sóknaráætlun Vestfjarða þá eru sterkar félagslegar tengingar og samheldni það sem einkennir samfélögin á Vestfjörðum. Hér ríkir einstakur samtakamáttur og slagorð Aldrei fór ég suður, hinnar vestfirsku tónlistarhátíðar „það gerir enginn rassgat einn“ segir allt sem segja þarf um viðhorf Vestfirðinga til samvinnu. Vestfirðingar þekkja held ég einna best hvað samvinna getur skapað. Þegar Vestfirðingar standa saman eru allir vegir færir jafnvel þótt við séum fá, vegalengdir séu langar og veðrið ekki alltaf á okkar bandi. Þá er það einmitt þessi vestfirska seigla sem getur gert Vestfirði framúrskarandi þegar kemur að farsæld barna.
