ETC Industry Forum, árlegur vettvangur Evrópska ferðamálaráðsins (ETC), fór fram í Hörpu fimmtudaginn 20. nóvember. Viðburðurinn bar yfirskriftina Tourism and Communities: Building Bridges Amid Unbalanced Growth og safnaði saman fulltrúum ferðamála í Evrópu, sérfræðingum og aðilum úr greininni til að fjalla um stöðu ferðaþjónustu, samfélagsleg áhrif og þróun í þágu íbúa.
Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra setti fundinn, sem helsta áhrifafólk á sviði ferðamála sótti og þar á meðal Sölvi Rúnar Guðmundsson forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða. Dagskráin spannaði allan daginn og var sett fram í formi erinda, pallborða og samtala um lykilþætti sem móta ferðaþjónustu í dag og til framtíðar.
Íbúar og samfélög í forgrunni
Í upphafi var yfirferð yfir viðhorf íbúa til ferðaþjónustu í Evrópu. Olivier Henry-Biabaud frá TCI Research kynnti nýjar niðurstöður sem sýna að meirihluti íbúa álfunnar er jákvæður gagnvart ferðamönnum og telur ferðaþjónustu hafa jákvæð áhrif þegar henni er vel stýrt. Þessar upplýsingar minna á mikilvægi þess að byggja upp ferðaþjónustu með samfélagsleg gildi að leiðarljósi.

Umræður um áhrif vaxtar og stefnumótun
Eitt af skemmtilegustu erindum dagsins voru rökræður í Morfís-stíl um hvort ferðaþjónusta geri meira gagn en ógagn. Þar komu saman fræðimenn og sérfræðingar sem tóku fyrir ólíkar nálganir á áhrif ferðaþjónustu á samfélög. Umræðan sýndi að vöxtur ferðaþjónustu getur leitt til álags ef honum er ekki vel stýrt, en með markvissri stefnumótun geti ferðaþjónusta orðið mikilvægur hluti af heildarvelferð samfélaga.
Rödd samfélagsins inn í ferðaþjónutu
Arnar Már Ólafsson, forstjóri Ferðamálastofu, fór yfir það hvernig ferðaþjónustan hefur þróast hér á landi og mikilvægi þess að byggja upp trausta og skýra samskiptaleið milli íbúa og greinarinnar. Markaðsstofur landshlutana spila þar lykilhlutverk. Í gegnum þær eru boðleiðirnar frá samfélagi og sveitarfélögum til ríkis og öfugt styttri. Hann lagði áherslu á að þróun greinarinnar þurfi að vera hluti af samfélagslegu samtali og að íbúar hafi skýra rödd í mótun stefnu.
Síðar um daginn tók Doug Lansky við keflinu í samtali um hvernig miðlun, samfélög og ferðaþjónustan geti talað skýrar saman. Hann fjallaði um þróun almannatengsla í ferðaþjónustu, breyttar væntingar gesta og þörfina á að samræma frásagnir þannig að þær endurspegli raunverulegt ástand áfangastaða.

Dæmi frá Evrópu: Austurríki og Finnland
Katrin Erben frá ferðamálastofu Austurríkis kynnti hvernig þau þar í landi hafa þróað nálgun sína með áherslu á hlustun, fjármögnun og að sýna samfélög í forgrunni. Leggja þau áherslu á að stýra ferðaþjónustu út frá álagi og íbúavelferð, frekar en að horfa eingöngu til fjölda eða tekna.
Frá Finnlandi kynnti Kristiina Hietasaari verkefnið Selected Routes for Mindful Travellers. Þar er áherslan á að nýta markaðssetningu sem stýritæki: að beina ferðamönnum út á minna sótt svæði og styrkja dreifingu um landið í takt við getu einstakra svæða. Slík nálgun á vel við á Íslandi — og sérstaklega á landsvæðum þar sem ferðaþjónustuan þarf að styðja samfélög.
Markaðssetning sem stýritæki – mikilvæg ábending fyrir Ísland
Í mörgum erindum kom fram að markaðssetning sé ekki aðeins kynningarstarf, heldur hluti af þróunarvinnu áfangastaða. Með markvissri markaðssetningu er hægt að dreifa álagi, beina ferðamönnum til minna sóttra svæða og styðja við svæði sem hafa burði til að taka á móti gestum á sjálfbæran hátt.
Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir svæði eins og Vestfirði þar sem dreifð byggð, viðkvæm náttúra og árstíðasveiflur kalla á skýra stefnu og virk notkun markaðssetningar til að ná jafnvægi milli heimsókna, aðstæðna og ásóknar.
Yfirlýsingin – lokapunktur tveggja daga dagskrár
Í lok dagsins var undirrituð Reykjavíkuryfirlýsingin, sameiginleg staðfesting 35 aðildarlanda ETC um að setja samfélög og íbúa í forgang í þróun evrópskrar ferðaþjónustu. Undirritunin markaði endapunkt tveggja daga vinnu sem fór fram í Reykjavík.