Samfélagsleg nýsköpun og samfélagsfrumkvöðlar eru ekki ný af nálinni á Íslandi en hugtökin eru þó ekki vel þekkt (eða á allra vörum) og viljum við gera okkar til að bæta úr því. Hugtökin nýsköpun og frumkvöðlar eru þó vel þekkt og eitt og annað sameiginlegt, en helsti munurinn sá að bæði uppsprettan og markmiðin eru af öðrum toga þegar „samfélags“ forskeytið bætist við.
Dagana 12.-14. maí verður fundaröð MERSE um Vestfirði þar sem rýnt verður í þessi mál. Verkefnastjórar MERSE, Steinunn Ása Sigurðardóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir fara yfir áðurnefnd hugtök og hvernig þau birtast okkur hér á Vestfjörðum. Einnig munu þær fara yfir hvað evrópska samstarfsverkefnið MERSE gengur út á, hvað er búið að eiga sér stað innan þess og hverju við höfum komist að.
Í framhaldi af því munu samfélagsfrumkvöðlarnir Anna Björg Þórarinsdóttir á Galdrasýningunni á Hólmavík, Birta Ósmann Þórhallsdóttir í Skriðu á Patreksfirði og Heiðrún Björk Jóhannsdóttir í Netagerðinni á Ísafirði segja frá verkefnum sínum. Þær hafa tekið þátt í leiðbeinendaþjálfun SEA eða Social Enterprise Academy á vegum MERSE og munu nýta tækni úr verkfærakistu sinni í skemmtilegri vinnu með fundargestum.
Fundirnir eru öllum opnir, en þeir eru ekki síst hugsaðir sem tækifæri til að koma saman fyrir þá sem vinna á sviði samfélagslegrar nýsköpunar eða hafa hug á því að gera það.
Fundirnir verða sem hér segir:
Mánudaginn 12. maí kl. 16:30 Galdrasýningin á Hólmavík
Þriðjudaginn 13. maí kl. 16:30 Bókaútgáfan Skriða á Patreksfirði
Miðvikudaginn 14. maí kl. 16:30 Netagerðin, vinnustofur, á Ísafirði
Gert er ráð fyrir að dagskrá taki tvær klukkustundir, boðið verður upp á kaffiveitingar.
Verið hjartanlega velkomin og skráið ykkur til leiks hér!