Fara í efni

Brennandi áhugi fyrir dvöl í Grímshúsi

Fréttir

Síðla vors kallaði Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar eftir umsóknum um fræðadvöl í Grímshúsi. Óhætt er að segja að brennandi áhugi hafi verið fyrir því að koma til Ísafjarðar og leggja stund á fræðastörf því alls bárust 251 umsókn frá umsækjendum í um 60 löndum. Valnefndinni sem starfar á vegum stofnunarinnar beið því ærið verk að velja gesti til dvalarinnar. Á endanum voru valdir tíu aðilar sem frá og með núverandi hausti og fram til sumarsins 2025 munu stunda rannsóknir sínar á Ísafirði. Neðst í fréttinni má sjá lista yfir gestina og verkefni þeirra.

Grímshúsi er ætlað að gefa erlendum og íslenskum vísindamönnum, sérfræðingum, fræðimönnum, rithöfundum og fleirum kost á 2-6 vikna fræðadvöl. Grímshús stendur við Túngötu 3 á Ísafirði, þar sem fjölskylda fyrrum forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar bjó á sínum tíma. Hann eignaðist helming hússins fyrir nokkrum árum og býður hann nú æskuheimili sitt, tvær hæðir og ris, sem dvalarstað fræðafólks.

Auk þess að sinna hinum fyrirfram völdu verkefnum er áformað er að sérhver fræðimaður haldi fyrirlestur eða taki þátt í sérstökum samræðufundum; ýmist á Ísafirði eða við háskólana í Reykjavík eða Akureyri.

Hér eru þeir einstaklingar og verkefni sem valin voru og birtast þau í þeirri röð sem dvöl þeirra skipar:

Seira Duncan frá Bretlandi. Verkefni: „Andleg vellíðan meðal frumbyggjasamfélaga á Norðurslóðum á tímum loftslagsbreytinga.”

Dina Brode-Roger frá Bandaríkjunum og Frakklandi. Verkefni: „Hvernig skilningur á umhverfinu hefur áhrif á áhættumat á Norðurslóðum: Samanburðarrannsóknir á Longyearbyen, Svalbarða og Ísafirði.”

Allison Chandler frá Kanada. Verkefni: „Háskólar sem þróunartæki á Norðurslóðum.”

Nishtha Tewari frá Indlandi. Verkefni: „Landafræði ókortlagðra veikinda: Heilsa, heimili og hreyfanleiki í indversku Himalajafjöllunum.”

Gabriel N. Gee frá Frakklandi. Verkefni: „Siglingasaga Íslands og Ísafjarðar.”

Elisa Debora og Benjamin Hofmann frá Sviss. Verkefni: „Hlutverk vísinda í sjálfbærum stjórnunarháttum: Þverfagleg sjónræn könnun á Vestfjörðum.”

Luke Earl Holman frá Bretlandi. Verkefni: Rannsóknarverkefni um áhrif manna á höfin og lífríki sjávar. Styrkt af Evrópusambandinu.

Anna J. Davis frá Bandaríkjunum. Verkefni: „Að vera Norðurslóðaríki? Rannsókn á Íslandi, Bandaríkjunum og Rússlandi. Mikilvægi tæknilegra og vísindalegra framfara fyrir stöðu Norðurslóðaríkja.”

Patrick Maher frá Kanada. Verkefni: „Rannsóknir á samskiptum Ísafjarðarbæjar við skemmtiferðaskip - Stjórnun verndarsvæða.”

Á fyrri hluta næsta árs verður svo opnað fyrir umsóknir fyrir dvöl á árunum 2025-26. Nánari upplýsingar veitir Matthildur María Rafnsdóttir á matthildur@arcticcircle.org eða á Grímsson Fellows