Fara í efni

Bjartsýnin sveif yfir vötnum á íbúafundi á Patreksfirði

Fréttir Svæðisskipulag Vestfjarða Sóknaráætlun Vestfjarða

Í gær hélt Vestfjarðastofa íbúafund í félagsheimilinu á Patreksfirði undir yfirskriftinni Framtíð Vestfjarða – þér er boðið að borðinu. Það var breiður hópur fólks víðsvegar af sunnanverðum Vestfjörðum sem sótti fundinn og fór þar fram kraftmikil vinna fundargesta sem mættu með bjartsýnina að vopni. Það er augljóst að hugur er í Vestfirðingum sem líta framtíðina björtum augum, enda hefur verið talsverður uppgangur á svæðinu í kjölfar erfiðra tíma sem höfðu í för með sér mikla íbúafækkun. Vestfirðingar hafa náð vopnum sínum á ný, íbúum hefur tekið að fjölga aftur og mikil umsvif átt sér stað í atvinnulífinu. Það er því full innistæða fyrir þessari von sem íbúar ala í brjósti um tímana framundan.

Ástæða íbúafundarins var gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði en þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er gert fyrir svæðið í heild sinni og gerð Sóknaráætlunar Vestfjarða 2025-2029. Í upphafi fundar fengu gestir kynningu frá starfsfólki Austurbrúar um hvaða þýðingu það hefur haft fyrir Austurland að marka sér sameiginlegt svæðisskipulag. Hrafnkell Proppé, sem heldur utan um gerð svæðisskipulagsins, fór yfir hvað í slíku skipulagi er fólgið og hvernig ferlið við gerð þess mun líta út. Héðinn Unnsteinsson fór yfir vinnuna við gerð nýrrar sóknaráætlunar fyrir svæðið en Vestfirðir sem aðrir landshlutar hafa verið með slíkar virkar frá árinu 2011 og eru þær gerðar til fimm ára í senn. Í kjölfar erindanna fór fram skemmtileg vinna þar sem kallað var eftir innleggi íbúa um málin og óhætt er að segja að þeir hafi ekki legið á liði sínu við vinnuna og komið með mikilvægt innlegg sem mun gagnast vel.

Vestfjarðastofa ákvað að fara nýjar leiðir til hvetja til þátttöku á fundinum og var bæði boðið upp á barnapössun á meðan á fundinum stóð og grillaðar pylsur í lokin. Það var slysavarnadeildin Unnur á Patreksfirði sem tók hvort tveggja að sér auk kaffiveitinga og fórst verkið glæsilega úr hendi. Þrettán börn skemmtu sér vel í þeirra umsjá á meðan að foreldrarnir mótuðu framtíð Vestfjarða. Ekki var annað að heyra en þetta fyrirkomulag hafi lagst sérlega vel í fundargesti sem lofuðu framtakið og haft var efir einum þeirra að ekki væri nóg að það væri séð um börnin heldur væri kvöldmatnum líka reddað.

Þetta var fyrsti íbúafundurinn af fjórum. Á morgun, miðvikudaginn 29. maí verður fundur í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, á fimmtudag verða fundir bæði í félagheimilinu á Hólmavík og Reykhólaskóla. Allir fundirnir hefjast klukkan 16:30 og lýkur kl.18:30 með grilli – barnapössun verður í boði á þeim öllum.

Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða sem skipað er fulltrúum allra sveitarstjórna á Vestfjörðum hefur yfirumsjón með gerð svæðisskipulagsins. Til framkvæmdar verksins hefur nefndin með sér starfsmenn Vestfjarðastofu og VSÓ ráðgjöf sem var valin á grundvelli útboðs í byrjun árs. VSÓ hefur sér til fulltingis skipulagsráðgjafafyrirtækið Úrbana, sem einnig vinnur að Sóknaráætlun 2025-2029 með Vestfjarðastofu.